140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, þetta er hættulegt ákvæði, en ég ætla þeim sem stóðu að breytingunni ekki svo mikið hugmyndaflug að tilgangurinn að þessari tillögu hafi verið Evrópusambandið og aðildarviðræðurnar sem nú fara fram. Ég held þetta sé miklu frekar rót öfundar, hugsanlega anarkista, stjórnleysingja, að menn sætti sig ekki við það fyrirkomulag sem hefur verið og nú eigi að koma bakdyramegin að því að taka eignir af fólki. Ég held að menn hafi ekki endilega verið með Evrópusambandið í huga þegar þeir lögðu til þessar breytingar.

Þetta er stórhættulegt ákvæði að mínu mati og tengist því skipulagi sem eignarrétturinn hefur búið til og byggt upp í samfélagi okkar. Þess vegna geld ég varhuga við því að þessar breytingar nái fram að ganga.

Ég vil undirstrika enn og aftur að við erum eingöngu að tala um þennan skoðanavagn. Við höfum ekki einu sinni fengið tækifæri til að takast á um þær efnislegu breytingar sem stjórnlagaráð hefur lagt til. Eins og ég hef líka sagt er ýmislegt sem hægt er að ræða og draga inn í þessa umræðu. Við fáum bara ekki tækifæri til þess.

Hvaða þýðingu hefur svona skref? Af hverju megum við ekki fara yfir það í þinginu með helstu stjórnskipunarfræðingum og mannréttindafrömuðum hér innan lands? Menn eru hræddir við umræðuna. Það er eins og menn séu hræddir við að við förum í dýpri umræðu um þau málefni er tengjast efnisbreytingum á stjórnarskránni sem slíkri.