140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:46]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og það innlegg sem hann kom með, meðal annars með skírskotun til þeirrar breytingartillögu sem felld var hér fyrr. Það var alveg skýrt hvert þingið vildi fara, það hafnaði því að fara með allar tillögurnar fyrir þjóðina. Telur hv. þingmaður að með þeirri leið sem ríkisstjórnin er að fara núna með Hreyfingunni sé í rauninni verið að sniðganga vilja Alþingis sem var mjög skýr á sínum tíma, eins og hv. þingmaður hefur bent á? Það voru 42, að mig minnir, á móti sex eða sjö sem vildu að fara leið Hreyfingarinnar. Telur hv. þingmaður að með þessu fari meiri hluti þingsins gegn ótvíræðum vilja þingsins fyrr? Býður það upp á þá hættu að um leið og breytingartillögur til dæmis í fiskveiðistjórnarmálum, sem eru umdeild og ríkisstjórnin ætlar að knýja í gegn, verða felldar komi ríkisstjórnin með svipaða tillögu, ekki algjörlega þá sömu, í öðrum búningi? Er það það sem hv. þingmaður er meðal annars að benda okkur í þinginu á?

Ég undirstrika líka það sem við sjálfstæðismenn sögðum eftir úrskurð Hæstaréttar um ógildingu stjórnlagaþingskosninganna, að ef menn ætla að skipa svona nefnd er bara best að menn kjósi aftur. Við lögðum líka til samhliða og það var aðaltillaga okkar í febrúar eða mars eftir úrskurð Hæstaréttar að vinna ætti að breytingum á forsendum þingsins. Það hefur gefist vel. Við verðum að vera minnug þess að ein helsta ástæðan fyrir því að nýjar breytingar á stjórnarskránni litu ekki dagsins ljós á sínum tíma, undir þeirri nefnd sem var undir forustu hv. þm. Jóns (Forseti hringir.) Kristjánssonar, var fyrst og fremst þvergirðingsháttur Samfylkingarinnar. Samfylkingin hefur að mínu mati sem betur fer breytt um afstöðu hvað það atriði varðar sem varð til þess að engar breytingar urðu á stjórnarskránni.