140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:52]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Ég virði það þegar þingmenn koma upp og viðurkenna að hugsanlega hefði flokkur þeirra átt að ræða málin betur og vera samstarfsfúsari, eins og til dæmis varðandi auðlindatillögurnar. Ég virði það mikils.

Ég var þeirrar skoðunar og er reyndar enn að við þurfum að breyta stjórnarskránni. Ég var reiðubúinn að stíga fleiri skref og lengri í þá átt en kannski aðrir þingmenn úr mínum flokki og öðrum stjórnarandstöðuflokkum til að það yrði að veruleika. En ég er þannig gerður að þegar ég segi að ákvörðun mín sé háð skilyrðum verð ég að standa við það. Skilyrði mitt á þeim tíma þegar ég samþykkti að stjórnlagaráð yrði að veruleika var að fjallað yrði um málið efnislega á Alþingi. Ég er þeirrar skoðunar að það sé vel hægt. Ég finn það í fjárlaganefnd þar sem við sitjum, margir þingmenn, að það er virkilega hægt að ná niðurstöðu í afar umdeildum málum, bara ef menn setjast niður og ræða saman. Það þarf ekkert annað en að setjast niður og ræða saman vegna þess að hvort sem þjóðinni líkar það betur eða verr, eða einhverjum, er gott fólk hér á Alþingi og ég hef ekki upplifað annað en að langflestir séu reiðubúnir að vinna hér að góðum málum.