140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:12]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Því er auðsvarað að þetta eru ágætisspurningar og ég held að það væri ágætt að þær fengju að fljóta með í þeirri könnun sem lagt er til að verði framkvæmd ef einhver meiri hluti myndast um það í þinginu þegar upp verður staðið. Það er hins vegar full ástæða til að staldra við þá staðreynd að menn telji sig ekki komna á þann stað að hafa sterka tilfinningu fyrir því hvaða grundvallarhugmyndir eigi að búa að baki nýrri stjórnarskrá þrátt fyrir að hér hafi verið haldinn þjóðfundur, þrátt fyrir að hér hafi starfað nefnd í nokkur ár þar sem öllum Íslendingum var gefinn kostur á að senda inn erindi og þrátt fyrir að við höfum haft tækifæri til að leita til sérfræðinga og taka saman fyrirmyndir annarra þjóða, þrátt fyrir að við höfum reynslu af framkvæmd íslensku stjórnarskrárinnar og vitum nokkurn veginn hvað hefur valdið ákveðnum vandkvæðum í framkvæmd. Hér myndaðist stjórnarskrárkrísa, getum við sagt, árið 2004 þegar 26. gr. var beitt í fyrsta sinn. Við vitum hvaða ákvæði það eru í stjórnarskránni og við sjáum það þá til dæmis í tengslum við framboð til embættis forseta Íslands hvers konar lausung er um það embætti eins og það birtist mér, a.m.k. hjá einstökum frambjóðendum sem hver um sig ætlar að fylla inn í rýmið sem stjórnarskráin skilur eftir eftir sínu höfði.

Það kemur mér mjög á óvart að þeir sem fara fyrir meiri hluta nefndarinnar telji sig eftir allt það sem áður hefur gerst ekki hafa nægjanlega tilfinningu fyrir því hvaða grundvallarhugsanir eigi að búa að baki (Forseti hringir.) endurskoðun stjórnarskrárinnar og eru þess vegna leitandi og hikandi. Lausnin á því er sú að bretta upp ermar á þinginu og hefjast handa við verkið en ekki senda það frá okkur.