140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, eins og mér heyrist hv. þingmaður vera líka, að þegar kemur að breytingum á stjórnarskrá sé samstaða ákaflega mikilvæg enda hafa menn unnið breytingar á stjórnarskrá Íslands þannig alla tíð þangað til nú. Nú horfum við því upp á töluverða breytingu hvað varðar nálgunina við þessa vinnu.

Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort ekki sé ákveðin hætta því samfara ef þessi nýja nálgun á breytingar á stjórnarskrá verður ofan á núna, þ.e. ef ríkisstjórnin ákveður að keyra í gegn sína útgáfu á stjórnarskrá sama hvað stjórnarandstöðu og öllum öðrum finnst, hvort ekki sé með því verið að setja hættulegt fordæmi. Þetta er auðvitað sérstakt áhyggjuefni fyrir mig sem miðjumann því að maður gæti horft upp á það að hér sveifluðust stjórnir milli hægri og vinstri — þó að vonandi komi ekki til þess að hér verði til hrein hægri stjórn eins og það varð til hrein vinstri stjórn — en ef sú yrði raunin gæti það þá hent að hér yrði lögð fram tillaga að stjórnarskrá þar sem kveðið væri á um lögleiðingu fíkniefna eins og ungir sjálfstæðismenn hafa beitt sér fyrir að undanförnu? Auðvitað viljum við ekki að slík vinnubrögð verði ofan á þar sem ríkjandi meiri hluti hverju sinni notar stjórnarskrána til að koma sinni pólitísku stefnu áleiðis.

Er hv. þingmaður sammála mér um að það væri hættulegt fordæmi ef þessari áratugagömlu hefð sem ekki að ástæðulausu er til staðar, hefðinni um samráð, yrði varpað fyrir róða? Þess vegna er mikilvægt, ekki bara fyrir núverandi stjórnarandstöðu heldur stjórnarandstöðu allrar framtíðar, að menn haldi í þá reglu að vinna breytingar á stjórnarskrá í sátt, enda (Forseti hringir.) á stjórnarskrá að vera grundvöllurinn sem meira og minna allir geta sætt sig við.