140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:22]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það, ég held að það sé mjög misráðið að breytingar á stjórnarskrá séu gerðar í ágreiningi. Það hefur verið mín skoðun alla tíð, það hefur verið málflutningur okkar sjálfstæðismanna í breytingum á stjórnarskrá allt frá því að minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hóf þessa vinnu sína á vordögum 2009 og vildi ekki tala við þáverandi stjórnarandstöðu, sérstaklega ekki Sjálfstæðisflokkinn, um breytingar á stjórnarskránni. Það var nánast yfirlýst markmið þeirra breytinga á stjórnarskrá að ekki skyldi leitað samráðs við einn stjórnmálaflokk. Það voru engar almennilegar skýringar gefnar fyrir því. Engar lögmætar skýringar sem hægt er að halda sér í voru gefnar fyrir því, menn bara gáfu sér að það yrði slíkur ágreiningur um breytingar á stjórnarskrá að ekki yrði hægt að ná slíku samkomulagi.

Þá byrjaði þetta mál sem hefur verið í ógöngum allar götur síðan. Ég vil hins vegar ekki gefast upp á þeirri hugsun að hægt sé að ná slíkri samstöðu. Ég tel að það sé hægt. Það hefur gegnum árin tekið nokkurn tíma að breyta stjórnarskránni þegar það hefur verið gert. Við settum inn heilan mannréttindakafla. Að sjálfsögðu þurftu menn að sitja yfir því og ná um það samstöðu. Það var líka gert í nefnd undir forsæti Jóns Kristjánssonar, fyrrverandi ráðherra, þar sem menn lögðu ýmislegt á sig og reyndu að tala sig niður á niðurstöðu um breytingar á stjórnarskránni. Þær breytingar náðu ekki fram að ganga en það er enginn sem segir að þær hefðu ekki gert það. Það var bara hreinlega stífnin í núverandi hæstv. forsætisráðherra sem stýrir því í hvers konar ógöngur breytingar á stjórnarskránni eru nú komnar.