140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:27]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hreyfir hér við grundvallaratriði sem er að það er ekki skynsamlegt að breyta stjórnarskrá í miðjum ólgusjó. Og það er ekki rétt sem haldið hefur verið fram, að stjórnarskráin hafi brugðist á árunum fyrir hrun. Það er ekki rétt, það er alls ekki rétt með farið þegar slíku er haldið fram.

Þegar verið er að tala um hvernig eigi að breyta stjórnarskrá er ég eindregið þeirrar skoðunar að það eigi að gerast hægt, að það sé skynsamlegt að það sé gert hægt. Mér finnst líka skynsamlegt að afmarkaðir þættir stjórnarskrárinnar séu endurskoðaðir en ekki hverju einasta orði hnikað til, kommu og punktum, af því að það verði að breyta öllu. Ég er eindregið annarrar skoðunar.

Þegar þessar stjórnarskrárbreytingar voru hér til umræðu í kjölfar þeirrar ákvörðunar forsetans að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar árið 2004 hygg ég raunar að ekki hafi verið mikill vilji hjá þáverandi stjórnarandstöðu til að hrófla við stöðu forsetans. Það var hins vegar alveg ljóst að ýmsir aðrir töldu að þarna hefði orðið til nýstárleg túlkun á stjórnarskránni og vildu ræða hvort ástæða væri til þess að ræða stöðu forsetaembættisins. Þá var það skoðun nefndarmanna að af því að ekki næðist um það samstaða skyldu menn ekki halda áfram við það, virðulegur forseti.

Það er dálítið fróðlegt í þeim breytingum sem nú eru fyrir lagðar á stjórnarskránni og reyndar í vetur í aðdraganda forsetakosninga að þingið hefur hreint ekkert talað um stjórnskipulega stöðu forsetaembættisins. Þingið hefur látið það alveg liggja á milli hluta og ekki rætt þau mál sem þó hafa verið kannski hin mestu álitamál þegar kemur að stjórnskipulegri undirstöðu þjóðarinnar.

Þetta mál er allt á öfugum enda reist. Það þarf að byrja á því á Alþingi að hefja hér umræðu um breytingar á stjórnarskránni. Þegar sú umræða er orðin þroskuð er eðlilegt að leita með málið út fyrir raðir þingsins, (Forseti hringir.) ekki fyrr.