140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:44]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Öll stórmál í einu samfélagi verða að byggjast á þokkalegri sátt. Það getur vel verið að þokkaleg sátt þýði að allir séu óánægðir, en það verður að byggja niðurstöðuna á þokkalegri sátt og samráði við alla aðila. Hvort sem menn ætla að koma stóru eða litlu í gegn þá er þetta grundvallaratriðið í stóru málunum. Það er svo auðvelt að nefna slíkt í þeirri umræðu sem hér fer fram, til að mynda varðandi gerð stjórnarskrár, varðandi fiskveiðistjórnarlög og rammaáætlun. Allt eru þetta mál sem byggja á feikilega miklum hagsmunum.

Stjórnarskráin er viðmiðunarskrif um vilja landsmanna og möguleika innan ákveðins ramma þar sem menn sitja við sama borð og eiga að sitja við sömu möguleika þó að slíkt verði aldrei tryggt endanlega, hvorki í almennum lögum né stjórnarskrá landsins.

Virðulegi forseti. Núgildandi stjórnarskrá er að mörgu leyti ágæt og truflar í engu möguleikann á að stjórna landinu af einhverju viti og truflar í engu möguleika til að gera hlutina öðruvísi þegar efnahagshrun skall á. Hún hefur alveg staðið fyrir sínu. Á mannamáli mætti breyta og bæta 15, 20 setningar í núgildandi stjórnarskrá, flóknara er málið í rauninni ekki. En það þyrfti að vanda og allan slíkan texta með orðalagi sem verður að vera sett niður á skýrmáli, skiljanlegu máli og tekur tillit til margra þátta sem kunna að vera lagalegs eðlis í stóru málunum, til að mynda varðandi auðlind Íslendinga og eign þeirra allra á auðlindinni, til að mynda varðandi orkunotkun landsins og þá með tilliti til þess að landsmenn eiga þessar auðlindir allar. Enginn ágreiningur er um það, nema í undantekningum, hjá neinum stjórnmálaflokki að þannig eigi þetta að vera.

Í fiskveiðistjórnarlögunum er ákvæði sem segir skýrt og skorinort að auðlindin í hafinu sé eign landsmanna allra. Það getur verið ágæt viðbót og búbót og aukatrygging að setja það ákvæði í stjórnarskrána. Flestir þingmenn eru sammála um það, sem betur fer, og þó ekki væri nema þess vegna ætti að vera hægt að hnýta þetta upp ef menn tíðkuðu það ekki í hv. Alþingi að vera með fleðurskap og falsvonir til fólksins í landinu.

Það er skelfilegt að tölvupóstar frá fólki sem vill segja sitt álit á stjórnarskránni skuli dengjast inn á tölvurnar. Það kemur af því að bjóða á fólki upp á að segja álit sitt þegar dæmið er gjörsamlega óklárað og ekki einu sinni hægt að skilgreina hvað er hvað og hvað er hvers og að hverju er stefnt. Þetta er hreinlega út í loftið. Þetta er eins og naglasúpan fræga þar sem öllu draslinu úr skúffunum var hent í pottinn. Þetta gengur ekki varðandi smíð eða lagfæringu á stjórnarskrá Íslands.

Þau 20, 30 meginatriði sem komu fram á þjóðfundinum sem fjallaði um atriði sem ástæða væri að taka upp í stjórnarskrá eru allt atriði sem þorri landsmanna er ugglaust mjög sammála um. Þá kemur að því að hnýta upp ákveðna sérþætti eins og eignarhald Íslendinga á auðlindinni. Það er mikill vandi og ekki nóg að segja það berum orðum heldur þarf að setja það í lagalegan búning þannig að það standist alþjóðalög og alþjóðasamninga. Það er mjög mismunandi eftir stjórnarskrám hinna ýmsu landa hvernig menn hnýta upp áhersluatriði sem þeir vilja draga fram og leggja megináherslu á. Þar undir flokkast að sjálfsögðu strax sjálfstæði Íslands, tungan og eign landsmanna allra á auðlindinni.

Virðulegi forseti. Ég árétta að stjórnarskrá er markmið, hugsjón og viðmiðun. Hún verður ekki í gadda slegin nema að því leytinu til að almennur skilningur, almenn skynsemi, almenn reynsla og túlkun sé bakhjarlinn.

Virðulegi forseti. Öll lög á Íslandi eru háð fjárlögum, háð því að hægt sé að tryggja fjármagn til að verja framgang laganna. Þetta gleymist í tíma og ótíma en er þó lykillinn að því að menn geti stýrt markvisst inn í framtíðina og átt von á leikgleði, búið við reglur sem eru þess eðlis að menn skilja þær sama skilningi og tala sömu tungu þegar þeir fjalla um þær. Þannig á stjórnarskrá að vera.

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega skrípaleikur að ríkisstjórnin bjóði upp á aðferð við gerð stjórnarskrár þar sem á að troða miklu magni, ómeltu og ómaríneruðu, í dós og loka henni. Þetta er svo sem ekkert nýtt hjá hæstv. ráðherrum Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og Steingrími J. Sigfússyni, efnahags- og viðskiptaráðherra. Þau hafa tíðkað þessi vinnubrögð sem eru forkastanleg og þekkjast hvergi í vestrænu ríki. Einstaka sinnum ber svo við að slík vinnubrögð séu viðhöfð í sumum Afríkuríkjum, á fátækustu svæðum Asíu, villtustu svæðum Suður-Ameríku og hjá ýmsum klúbbum í Norður-Ameríku. Þar tíðkast vinnubrögð sem eru geðþóttavinnubrögð, valdbeiting og ekki tekið á neinum málum af markvísi, hvað þá hugsjón.

Þess vegna, virðulegi forseti, verður að hvetja til þess að Alþingi taki þetta mál í sínar hendur, skipi reyndustu menn til að vinna úr því sem búið er að vinna hvar sem það nú liggur, leggja það fyrir Alþingi sem síðan afgreiðir það og leggur fyrir þjóðina.