140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Þingmaðurinn gerði töluvert úr ferli og vinnulagi við málið. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður heyrði ræðu hv. þm. Höskulds Þórhallssonar fyrr í kvöld þar sem hv. þingmaður fór yfir breytingartillögu sem var flutt hér og felld á sínum tíma. Ég held að sex þingmenn hafi stutt þá breytingartillögu frá Hreyfingunni. Einnig nefndi þingmaðurinn samkomulag sem hefði verið gert um meðferð á stjórnlagaráðsmálinu þegar það kom inn til þingsins.

Það er komin fram breytingartillaga frá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni við þær spurningar sem á að spyrja þjóðina. Mig langar að lesa upp spurninguna sem hv. þingmaður leggur til. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Eiga breytingar á stjórnarskrá að miða að því að um hana verði sem víðtækust sátt?“

Og svarmöguleikar eru já eða nei.

Ég held að það sé mjög eðlilegt að spyrja þá sem ætla að taka þátt í þessari könnun og þessari atkvæðagreiðslu hvort það sé almennt vilji þeirra sem taka þátt eða hafa áhuga á stjórnarskránni að um þær breytingar sem verið er að gera ríki sem víðtækust sátt.

Öllum ætti að vera ljóst að í það minnsta á Alþingi ríkir engin sátt um það ferli sem er búið að vera hér um þessar breytingar. Það hefur hins vegar komið fram held ég hjá hverjum einasta ræðumanni að það eru allir tilbúnir eða hafa ákveðnar skoðanir á því að gera breytingar á stjórnarskránni. Menn vilja hins vegar fara aðrar leiðir og eitthvað svoleiðis. Hefur hv. þingmaður orðið var við að þeir sem standa nú harðast að þessari tillögu, þessu ferli, hafi tjáð sig eitthvað hér í þessari (Forseti hringir.) umræðu um að leita leiða til að skapa sátt um þetta mál?