140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, öllu skal haldið til haga. Að mínu mati hefur ríkisstjórnin gefist upp á verkefninu. Hún gafst upp á því að reyna að ná þeirri sátt og samkomulagi sem er svo mikilvægt þannig að menn geti lifað síðan í sátt og samlyndi bæði innan samfélags og í tengslum við stjórnarskrána. Ég held að þetta sé fyrst og fremst uppgjöf af hálfu vinstri manna. Það hvernig þeir hafa umgengist stjórnarskrána með ógegnsæju brölti sínu, og að mínu mati allt að því ólýðræðislega, er að vissu leyti vanvirðing við stjórnarskrána.

Ég held líka að hv. þingmaður hafi einmitt komið að því sem skiptir okkur máli, það er að sjá hvernig þetta mál vinnst áfram, þ.e. ef það verður samþykkt að setja fram þennan spurningavagn. Síðan verður unnið úr þessum spurningum, og hvað gerist þá? Hvenær fáum við að taka efnislega umræðu? Hversu mikinn tíma fær Alþingi Íslendinga, elsta þjóðþing í heimi, að taka í það að ræða efnislega um stjórnarskrána? Við erum kannski bara að tala um í mesta lagi tvo, þrjá mánuði vegna þingkosninga, ekki nema ríkisstjórnin ætli sér að fresta þingkosningunum sem væri hugsanlegt. Ég hef samt ekki trú á því að hún geri það.

Ætlar ríkisstjórnin að bjóða upp á það að Alþingi Íslendinga ræði gagngerar breytingar, umbyltingu á stjórnarskránni, á tveimur, þremur mánuðum? Hvers konar vinnubrögð eru það? Þess vegna fullyrði ég að þetta er vanvirðing við stjórnarskrána eins og ríkisstjórnarflokkarnir eru að umgangast þetta mál á allan hátt.

Gott og vel, ef menn ætla bara að ræða stjórnarskrána og engin önnur mál verða lögð fyrir þingið er þetta samt ekki nægur tími. Þá átta menn sig ekki á því hvers konar plagg stjórnarskrá Íslands er.

Það hefði verið gott líka að fá svör frá þeim sem hafa setið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um hvernig þeir sjái framhaldið fyrir sér, hvernig þeir sjái fyrir sér að Alþingi Íslendinga geti tekið efnislega umræðu (Forseti hringir.) um þetta mikilvæga mál.