140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Spurningin um fullveldisframsalið er að sjálfsögðu gríðarlega mikilvæg í sambandi við það mál sem við ræðum hér. Við erum að ræða stjórnarskrá Íslands, við erum að ræða hvort við viljum opna hana þannig að fullveldisframsal, valdaframsal, verði auðveldara en það er í dag, verði einfaldara. Að mínu viti er í þessum tillögum verið að færa framkvæmdarvaldinu meira vald á kostnað Alþingis en hefur nokkurn tímann áður verið gert hér.

Ég skil því ekki, frú forseti, hvers vegna ekki er spurt um þetta risastóra mál. Í fyrsta lagi hvort þjóðin sé tilbúin til að afsala sér meira fullveldi, ef menn vilja orða það þannig, en gert hefur verið, mörgum finnst nú nóg um, og í öðru lagi hvort þjóðin sé virkilega á því að halda eigi áfram viðræðum við Evrópusambandið sem munu enda með fullveldisframsali að mínu viti.

Ég held að það sé okkur flestum hulin ráðgáta hvers vegna farið er af stað með þær spurningar sem lagðar eru fram í tillögunni en ekki stórar spurningar eins og þessar, a.m.k. á maður erfitt með að trúa því að það sé vegna þess að alþingismenn séu á einhvern hátt hræddir við að fá fram afstöðu þjóðarinnar til jafnstórs máls og Evrópusambandsumsóknin er, eins og fullveldisframsalið er.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður benti á að í utanríkismálanefnd er um mjög stórt mál að ræða sem lýtur að akkúrat sama hlut, þ.e. meira afsal eða framsal fullveldis en við höfum áður séð. Það kallar á breytingar á stjórnarskrá gangi það eftir. Þar af leiðandi er mjög mikilvægt að efnisleg umræða fari fram um allar þessar tillögur og öll þessi mál. Sú umræða hefur ekki farið fram á Alþingi. Alþingi hefur ekki tekið neina efnislega umræðu um þessi stóru mál.