140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ræði enn tillögur stjórnlagaráðs sem þjóðin á að greiða atkvæði um. Ég tel mikilvægt að við hv. þingmenn förum í gegnum þessar hugmyndir, höfum alla vega sett okkur inn í málið, því að við ætlumst til þess að kjósandinn geri það, hver og einn einasti.

Víða í tillögum stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir auknum meiri hluta í afgreiðslu Alþingis. Í 3. mgr. 97. gr. stendur varðandi skipun dómara og ríkissaksóknara að forseti skuli samþykkja hana. Ef hann geri það ekki eigi Alþingi að samþykkja hana með tveim þriðju hlutum atkvæða. Þá er spurningin: Hvað þýðir það eiginlega? Nú þurfa minnst 32 þingmenn að vera viðstaddir atkvæðagreiðslu, tveir þriðju hlutar þeirra þýðir að 22 þingmenn eigi að samþykkja þessa skipun, einungis 35% allra þingmanna. Þannig staða gæti komið upp. Þetta held ég sé eitthvað misráðið, menn eru örugglega að meina tvo þriðju af öllum þingmönnum, um 40 þingmenn. Þetta vil ég að sé lagað af þeirri nefnd sem fjallar um þetta. Ég vil líka að kjósendur viti af því þegar þeir greiða atkvæði um þetta að þeir séu að samþykkja orðalagið svona.

Orðalagið er mjög víða afskaplega flókið. Ef við förum í gegnum 5. mgr. 39. gr., með leyfi forseta:

„Kjósandi velur með persónukjöri frambjóðendur af listum í sínu kjördæmi eða af landslistum, eða hvort tveggja. Honum er og heimilt að merkja í stað þess við einn kjördæmislista eða einn landslista, og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt. Heimilt er að mæla fyrir um í lögum að valið sé einskorðað við kjördæmislista eða landslista sömu samtaka.“

Það er alltaf talað um samtök, eins og samtök kjósenda, sem hingað til hefur verið kallað flokkur á íslensku, í mínum skilningi, en nú kallast það samtök kjósenda. Það er eitthvert nýyrði. Ég mundi vilja laga það alls staðar.

Þetta er náttúrlega óhemjuflókið, frú forseti. Ég skil ekki hvernig ætlast er til þess að þetta sé í stjórnarskrá þar sem menn vilja helst að 80% Íslendinga skilji hvað stendur í kaflanum. Ég legg til að þetta verði einfaldað og sagt: Kjósandi má velja frambjóðendur með persónukjöri eða af listum — punktur. Þar með er eiginlega allt sagt.

Ég ætla ekki að ræða nánar um forseta Íslands. Ég er búinn að ræða um embættið og tel að það sé orðið gjörólíkt því sem var fyrir 10–15 árum. Héðan í frá eru allar kosningar forseta pólitískar kosningar, þ.e. flokkspólitískar. Það má segja að það stefni í það núna en ég ætla ekki að fara nánar út í það.

Frú forseti. Í mörgum greinum er mikið orðskrúð. Í 1. mgr. 8. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.“

Hvað skyldi þetta þýða? Hvað þýðir að lifa með reisn? Eiga menn þá að vera glaðir alla daga? Hvað þýðir það eiginlega?

„Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.“ Ég hef grun um hvað það þýðir. Það þýðir að virða eigi alls konar frávik frá norminu, virða eigi útlendinga og alls konar réttindi. Þetta er ekki eitthvað sem allir gætu skilið eins. Ég mundi leggja til að menn breyttu þessu. En hvað eru menn eiginlega að segja? Mér finnst vanta í mannréttindakafla stjórnlagaráðs að við séum öll frjáls. Það stendur hvergi: Öll erum við frjáls. Það mundi ég vilja láta standa þar. Þá liggur það fyrir og ég mundi vilja bæta við: … og ekkert okkar má hneppa í þrældóm. Ég sé hvergi í þessum tillögum, nema helst í þessu skrúðmælgi að öllum skuli tryggður réttur til að lifa með reisn, að ekki megi hneppa menn í þrældóm, mansal. Ég vil kalla hlutina réttum nöfnum, ekki búa til eitthvert skrúðmælgi og segja að þar sem menn eigi rétt á að lifa með reisn megi ekki hneppa þá í þrældóm.

Ég er ekki alveg búinn, frú forseti, og ætla að biðja um að verða settur aftur á mælendaskrá.