140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Að undanförnu hefur verið vaxandi umræða um hugsanlega þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarferli Íslands að ESB og þingmenn og ráðherrar hafa gefið út yfirlýsingar þar að lútandi. Afstaða mín í þessu máli öllu hefur lengi legið fyrir en af þessu tilefni hef ég lagt fram formlega bókun í utanríkismálanefnd þingsins sem ég vil upplýsa þingheim um. Með leyfi forseta hljóðar bókunin svo:

„Aðildarferli Íslands að Evrópusambandinu hefur dregist á langinn og fyrirsjáanlegt er að ferlið dragist enn ef ekkert er að gert. Þessi vegferð dregur athygli og orku frá aðkallandi verkefnum og verður þess valdandi að tefja og takmarka þróun annarra valkosta við endurreisn íslensks samfélags. Slíkt er bæði áhættu- og kostnaðarsamt fyrir þjóðarbúskapinn.

Þær fórnir sem aðildarferlið krefst, sundurlyndið sem það myndar, athyglin sem það dregur frá öðrum valkostum og ringulreiðin innan Evrópusambandsins eru allt röksemdir fyrir því að gera þjóðinni kleift hið fyrsta að koma að málinu.“

Því er haldið fram að ekki liggi nægar upplýsingar fyrir. Það er rangt. Þær liggja fyrir. Áskorunin er að koma þeim til skila. Forsendur fyrir hvert mannsbarn til upplýstrar ákvörðunartöku um aðild að ESB liggja fyrir. Það sem vantar er viljinn til að sú ákvörðunartaka megi fara fram.

Hið brýna úrlausnarefni sem við blasir er ekki áframhaldandi aðlögun Íslands að ESB heldur upplýst þjóðfélagsumræða í aðdraganda almennrar atkvæðagreiðslu þar sem þjóðin fær að svara þeirri spurningu hvort hún vill ganga inn í ESB. Efna þarf til slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu hið fyrsta fyrir lok þessa árs og hvet ég til þverpólitískrar samstöðu um að svo geti orðið.

Forseti. Ég vildi einfaldlega árétta þessa bókun og afstöðu mína fyrir þingheimi enda málið brýnt og mikið í umræðunni.