140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Þau tíðindi urðu í utanríkismálanefnd í morgun að þar myndaðist nýr meiri hluti fyrir því að þjóðin fái tækifæri til að greiða atkvæði um hvort hún vill halda áfram aðildarumræðum og hvort hún vill ganga í Evrópusambandið.

Með yfirlýsingu þeirri sem hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir las upp áðan er undirstrikað að meiri hluti er fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarferlið. Ég tel það mjög mikilvægt og í raun einsdæmi að meiri hluti utanríkismálanefndar þjóðþings sem er í formlegu aðildarferli að Evrópusambandinu álykti með þessum hætti. Bókun hv. þingmanns kom fram á fundinum og eftir það ályktuðum við, fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þar sem við tókum undir gagnrýni hv. þingmanns. Við lögðum til að í ljósi þessara tíðinda yrði hæstv. utanríkisráðherra boðaður á fund nefndarinnar og í framhaldinu tæki Alþingi málið til umfjöllunar.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði í nóvember á síðasta ári um að gera skyldi hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið og þær yrðu ekki hafnar að nýju nema það yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú ályktun er í fullu samræmi við það sem fram kom í máli hv. þingmanns og ég tel mjög mikilvægt og brýnt fyrir Alþingi að taka málið til umfjöllunar hið fyrsta og leiða í ljós hvort kominn sé meiri hluti á Alþingi fyrr því að leyfa þjóðinni að kjósa um (Forseti hringir.) hvert framhald aðildarferlisins eigi að vera.