140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Hér hefur nokkuð verið til umfjöllunar það sem gekk á í utanríkismálanefnd í morgun. Það verður að upplýsast í þessum sal að afstaða hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur ætti ekki að koma neinum á óvart enda hefur það lengi legið ljóst fyrir hver afstaða hennar er í málinu.

Reyndar verð ég að viðurkenna, virðulegi forseti, að það kemur mér alltaf jafnmikið á óvart hvað þeir sem eru andstæðir aðild að Evrópusambandinu eru uppteknir af því að kjósa um aðildina áður en samningurinn lítur dagsins ljós. Það mætti halda að þeir hefðu eitthvað að óttast. Hafa þeir eitthvað að óttast með það að leyfa þjóðinni að taka afstöðu til samningsins þegar hann er tilbúinn á borðinu? (Gripið fram í: Við viljum samtal við þjóðina.)

Þó vil ég segja það, virðulegi forseti, að ég tek undir með hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur um mikilvægi þess að þjóðin svari þeirri spurningu hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið og hún á að fá að taka þá ákvörðun á grundvelli upplýsinga, upplýstrar umræðu. Hún á að fá að vita hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið og hafa til þess nægar upplýsingar til að geta tekið upplýsta ákvörðun. (Gripið fram í.) Já, um það erum við sammála.

Ég vil hins vegar segja: Þjóðin á að skera úr um aðild að Evrópusambandinu þegar samningur liggur fyrir því þá fyrst getur hún tekið afstöðu til samnings, getur hún tekið afstöðu til aðildar á grundvelli upplýsinga. (Gripið fram í: … stjórnarskrána.) Þá hefur hún nægar upplýsingar til að taka upplýsta ákvörðun. Þess vegna segi ég, virðulegi forseti: Já, látum þjóðina taka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu. Já, látum hana taka afstöðu til aðildar á grundvelli upplýsinga. En þær upplýsingar munu ekki liggja fyrir fyrr en aðildarsamningur er tilbúinn á borðinu fyrir þjóðina til að taka afstöðu til.