140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er greinilegt að það styttist í prófkjör í Samfylkingunni. Menn koma hér til að sýna og sanna hversu góðir samfylkingarmenn þeir eru. Og hvað felst í því að vera góður samfylkingarmaður? Það er að halda uppi svona morfísmálflutningi, er það ekki það sem menn hafa kallað þetta, og hv. þingmaður einnig, fara með eins marga samfylkingarfrasa á eins stuttum tíma og mögulegt er án nokkurrar vísunar til sannleikans. Enda er það ekki neitt áhyggjuefni hjá samfylkingarmanninum að vísa til sannleikans ef frasarnir hljóma nógu sniðuglega svo að hv. þm. Lúðvík Geirsson hlæi að þeim.

Frú forseti. Hv. þingmaður nefnir hér að Framsóknarflokkurinn hafi skipt um stefnu hvað varðar stjórnarskrármál og heldur uppi auglýsingu frá Framsóknarflokknum. Þetta er því miður lýsandi fyrir vanda Samfylkingarinnar sem stjórnmálaflokks. Hún gerir engan greinarmun á því að gera hlutina vel eða gera þá almennilega. Þær tillögur sem ríkisstjórnin talar fyrir í stjórnarskrármálinu eru gersamlega í andstöðu við þau vinnubrögð sem Framsóknarflokkurinn boðaði í málinu. Samfylkingarmanninum er nefnilega alveg sama um hvernig hlutirnir eru gerðir. Fyrir Samfylkingarmanninum gengur allt út á frasana, allt út á að þykjast vera talsmenn lýðræðis. En hvað gera þeir þegar þeir hafa raunveruleg tækifæri til að sýna fram á að þeir séu talsmenn lýðræðis, þegar þeir geta raunverulega sett mál í dóm þjóðarinnar? Nei, þá má þjóðin ekki koma að málum. Þá ætlar Samfylkingin að hafa vit fyrir þjóðinni. Hvað með t.d. Icesave? Hvað með Evrópusambandið? Ekki má þjóðin segja álit sitt á því á þessu stigi. Ekki má hafa samtal við þjóðina um Evrópusambandið en það má setja gersamlega óskiljanlegar spurningar um stjórnarskrána í þjóðaratkvæðagreiðslu. Til hvers? Til að geta farið með samfylkingarfrasana, til að geta komið hingað upp og haldið eina samfylkingarræðu og sýnt sig og sannað sem frasasmið vegna þess að einungis þannig kemst maður upp listann hjá Samfylkingunni og einungis þannig kemst maður á þing fyrir Samfylkinguna. (Forseti hringir.) Því miður er afleiðingin af því sú ríkisstjórn sem við sitjum uppi með, ríkisstjórn sem hefur ekki gert neitt gagn fyrir Ísland undanfarin þrjú ár og valdið meiri skaða en sjálft efnahagshrunið.