140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

beiðni um skýrslu.

[14:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Í tilefni af orðum hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar get ég að sjálfsögðu staðfest að ég lagði fram í október beiðni ásamt átta öðrum þingmönnum um skýrslu frá efnahags- og viðskiptaráðherra að því er varðar launagreiðslur til stjórnenda í bönkunum og til skilanefnda og slitastjórna. Reyndar var það endurflutningur á þeirri skýrslubeiðni því að hún var fyrst flutt á síðasta þingi, á 139. löggjafarþingi, og það kom engin skýrsla á því þingi. Nú er sem sagt allur þessi vetur liðinn án þess að efnahags- og viðskiptaráðherra hafi lagt inn skýrslu samkvæmt þeirri beiðni sem Alþingi samþykkti í október síðastliðinn.

Það er að sjálfsögðu mjög bagalegt þegar það dregst von úr viti að skýrslu sé skilað og það er ekki alveg viðunandi að henni sé skilað undir lok þings eða jafnvel eftir að þing hættir störfum því að þá gefst ekki tækifæri til að ræða efni skýrslunnar með þeim hætti sem þingsköp hljóta að gera ráð fyrir. (Forseti hringir.) Ég tek því undir orð hv. þingmanns og hvet forseta til að ganga eftir því að umræddar skýrslur líti dagsins ljós.