140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst lýsa yfir ánægju með að hv. þm. Lúðvík Geirsson hafi tekið þátt í umræðunni. Auðvitað má segja að þetta hafi verið svolítið kómískt innlegg hjá honum. Hann var í raun með harða gagnrýni á þá tillögu sem hér liggur fyrir og tók breytingartillögur frá öðrum hv. þingmönnum og gat þess að þær væru óljósar og óskýrar. Röksemd hv. þm. Lúðvíks Geirssonar var sú að það væri ekki ásættanlegt þegar við værum að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eða skoðanakönnun á meðal þjóðarinnar. Þar er ég algerlega sammála hv. þm. Lúðvíki Geirssyni.

Ég spurði þess vegna hv. þm. Baldur Þórhallsson hér áðan, og hv. þm. Birgir Ármannsson vék að því í ræðu sinni, út í þau orð hans, sem hv. þm. Lúðvík Geirsson endurtók, að bestu aðferðafræðingar þessa lands hefðu komið að því að semja þessar spurningar. Síðan kom hv. þm. Baldur Þórhallsson með túlkun sem ég hef aldrei heyrt. Hann sagði að þessar spurningar gengju út á það hvort vinna mætti áfram með tillögur stjórnlagaráðs, út á það gengi kosningin. Ég hef aldrei heyrt það.

En ég vildi kannski spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson, af því að hann situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd: Er vitað hverjir þeir bestu aðferðafræðingar Íslands eru sem eiga að hafa samið þessar spurningar? Ég held að það skipti miklu máli að það komi fram og við þurfum að fara varlega í það ef einhver þinghelgi er yfir því. Á meðan ekki er ljóst hverjir það eru þá liggja allir aðferðafræðingar landsins undir grun.