140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna þessarar tilteknu spurningar hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar vísa ég í það sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem ég á ekki aðild að. Þar eru raktar umsagnir sem um málið hafa komið og þar er líka getið nokkurra sérfræðinga sem komu fyrir nefndina.

Ég hygg að mér sé óhætt að segja að fram hafi komið á vettvangi nefndarinnar að leitað hafi verið ráða varðandi gerð spurninga hjá Guðbjörgu Andreu Jónsdóttur hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Um þátt annarra fræðimanna sem þarna eru nefndir er mér ekki kunnugt en þeir höfðu mismunandi sjónarmið um þessi mál sem ég veit ekki hvort mér er heimilt að rekja, alla vega voru mismunandi sjónarmið um það. Það kom fram að leitað hafði verið ráða hjá Guðbjörgu Andreu Jónsdóttur en hins vegar hlýtur að vera ljóst að spurningarnar sem slíkar eru auðvitað ekki á ábyrgð neins annars en þess sem þær leggur fram. Hvað sem líður orðum hv. þm. Baldurs Þórhallssonar þá er það auðvitað meiri hlutinn í nefndinni sem ber ábyrgð á sínum spurningum eins og við í minni hlutanum berum ábyrgð á okkar spurningum og aðrir þingmenn á sínum. Það er auðvitað þannig.

Það er hins vegar rétt að fram komi, og hefur réttilega komið fram, að landskjörstjórn fjallaði um spurningarnar eins og þær voru í upphaflegu tillögunni, gerði verulegar athugasemdir við þær. Breytingar voru gerðar í meðförum nefndarinnar af hálfu meiri hlutans og orðalagið var lagfært en þó fyrst og fremst í þá átt að unnt væri að spyrja (Forseti hringir.) með þeim hætti að svörin yrðu já eða nei. Mælikvarðinn var aðallega sá hvort spurningarnar væru nægilega skýrar til að hægt væri að svara þeim með já-i eða nei-i en landskjörstjórn fór ekki mikið inn í efnið.