140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Málin breytast hratt hér við Austurvöll eins og atburðarás þessa dags hefur leitt í ljós. Staðan breyttist í Evrópusambandsmálinu þegar hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir gaf út þá yfirlýsingu á fundi utanríkismálanefndar í morgun að landsmenn ættu að fá að greiða atkvæði ekki seinna en um áramót um það hvort halda ætti áfram aðlögunarferlinu eða ekki. Ég fagna mjög þessari ákvörðun þingmannsins og fagna því að fleiri og fleiri stjórnarliðar eru að gefa sig fram varðandi þessi mál.

Hæstv. innanríkisráðherra sagði að það væri algert glapræði að sækja um aðild að Evrópusambandinu á þessum tímum og gaf þá yfirlýsingu í andsvari við mig í gær. Áður hafði hæstv. umhverfisráðherra gefið það út að greiða ætti atkvæði um þá kafla sem væri lokið. Svo hafa hv. þingmenn Árni Páll Árnason og Helgi Hjörvar ýjað að því að það væri orðið tímabært að fara með þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það sjá það allir nema einhver hluti hv. þingmanna Samfylkingarinnar að við þetta verður ekki unað lengur. Hér fer mikill þungi, peningar og orka í að halda þessu aðlögunarferli úti.

Það birtist mjög vel undir umræðunum störf þingsins áðan hversu blindir hv. þingmenn Samfylkingarinnar, Mörður Árnason, Helgi Hjörvar og Magnús Orri Schram, eru á stöðu mála. Þeir eru það blindir að þeir telja hvorki sjálfa sig né landsmenn vita hvað Evrópusambandið gengur út á né hvert innihald Lissabon-sáttmálans er. Þessir þingmenn verða að tala fyrir sig en ég veit jafn vel og landsmenn allir út á hvað Evrópusambandið gengur.

Meira að segja hæstv. ríkisstjórn hefur setið á neyðarfundum í sérstöku ráðherraráði þar sem farið er yfir það hvernig stjórnvöld hér á landi bregðast við ef og þegar Grikkland gengur úr evrusamstarfinu og hvaða skaðlegu áhrif það muni hafa á íslenskt efnahagslíf. Það er samt ekki nokkur leið fyrir þingmenn Samfylkingarinnar og stuðningsmenn hennar að átta sig á því að þessi leið er ófær þrátt fyrir að hæstv. ríkisstjórn hafi setið þessa fundi.

Það er alla vega verið að gera eitthvað í ráðuneytunum varðandi ástandið í Suður-Evrópu, eitthvað annað en halda þessari umsókn til streitu. Ég tel að nú sé farið að halla verulega undan fæti fyrir umsókninni vegna þess að sífellt verða fleiri og fleiri þingmenn sammála mér.

Mig langar að kynna breytingartillögu sem ég hef lagt fram og hefur verið nokkuð til umræðu meðal þingmanna. Ég legg til að heiti þeirrar þingsályktunartillögu verði, með leyfi forseta:

„Tillaga til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd, auk atkvæðagreiðslu um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.“

Þarna er ég búin að gera tillögutextann þannig að það fer ekkert á milli mála að greiða eigi atkvæði um eitthvað af tillögum stjórnlagaráðs og svo aðild að Evrópusambandinu.

Með þessari breytingu er ég að gera þessa þjóðaratkvæðagreiðslu skýrari:

„Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig skulu greidd atkvæði um það hvort stjórnvöld eigi að draga umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka.“

Skýrara getur það ekki verið.

Ég vil í ljósi atburða morgunsins gera það að tillögu minni að nú verði þessu máli hraðað í gegnum þingið, að þessi breytingartillaga fái raunverulega hljómgrunn og gengið verði til atkvæða um hana því að ég veit að komi þessi tillaga til samþykktar í þinginu munum við sjá fram á að kosningaþátttaka í þessari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu verði 80–95% en ég er ansi hrædd um að kosningaþátttakan verði slæm ef ekki verður kosið um (Forseti hringir.) það hvort landsmenn eigi að fá að segja álit sitt (Forseti hringir.) í þjóðaratkvæðagreiðslu á því hvort halda eigi áfram aðildarferli eða ekki.