140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir spurninguna. Jú, ég hef meira að segja lagt það til í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að farið yrði í skoðanakönnun sem hefði kannski úrtak upp á 10–15 þús. manns vegna þess að þá fáum við allar þjóðfélagsstéttir inn í þá skoðanakönnun. Verði bara kosið um þessi svokölluðu stjórnarskrármál í þjóðaratkvæðagreiðslu er mikil hætta á því að það verði einsleitur hópur sem mæti á kjörstað, þeir sem hafa áhuga á stjórnarskipunarmálum eða stjórnarskrármálunum, en að hinir sem hafa ekki áhuga á þessum málum sitji heima. Svo verður mjög stórt mengi líka sem kemur til með að sitja heima vegna þess að fólk veit að þetta er einungis ráðgefandi skoðanakönnun og að það er ekki endanlegt plagg sem verið er að leggja fyrir í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu.

Varðandi hins vegar ESB-umsóknina og þá breytingartillögu sem ég legg fram um að landsmenn fái að koma að því núna að segja álit sitt um hvort halda eigi áfram aðlögunarferlinu eða ekki er það líka ráðgefandi og fólk hefur sagt: Bíddu, það er bara ráðgefandi og stjórnvöld eru ekki bundin af niðurstöðunni. Ég vil fara fram með þetta til að kanna þjóðarvilja fyrir því hvort eigi að halda áfram eða ekki vegna þess að sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem er boðuð eftir að aðildarsamningur næst, hvenær sem það verður, verður líka ráðgefandi. Stjórnvöld eru ekki heldur bundin af þeirri niðurstöðu. Þess vegna er best að fara af stað með þetta núna vegna ólgunnar í Evrópu og raunverulega ástandsins hér á landi og andstöðu landsmanna við Evrópusambandið yfir höfuð. Það er alltaf Alþingi sem kemur til með að skera úr um það hvort við göngum í Evrópusambandið eða ekki. Alþingismenn eru bundnir af sannfæringu sinni, hingað þarf aðildarsamningurinn að koma að lokum og síðan þarf að breyta stjórnarskrá (Forseti hringir.) og senda samninginn í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) þannig að boðuð þjóðaratkvæðagreiðsla er líka ráðgefandi.