140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör en mig langar til að spyrja hana frekar. Þessi umræða öll er talin eiga sér þá ástæðu og orsök að Hreyfingin hafi lofað að styðja ríkisstjórnina og þess vegna hafi málið skyndilega verið tekið út úr nefnd og sett í umræðu, töluvert vanhugsað að mínu mati. Umræðan gengur líka öll út á það.

Nú hefur það gerst að Hreyfingin hefur hætt stuðningi sínum við ríkisstjórnina. Telur hv. þingmaður þá ástæðu til að hætta þessari umræðu þar sem ekki þarf lengur að halda henni áfram? Telur hv. þingmaður að hv. stjórnarliðar hafi kannski minni áhuga á því núna að þetta mál fari til þjóðaratkvæðagreiðslu svo vanbúin eins og umræðan hefur sýnt fram á þannig að það hafa orðið þessar breytingar? Hv. þingmaður nefndi að það hefðu orðið breytingar í utanríkismálanefnd í morgun þegar einn hv. þingmaður Vinstri grænna dró stuðning sinn til baka. Þar hafa orðið ákveðin vatnaskil en ég sakna þess einmitt að hún hafi ekki rætt þau vatnaskil sem urðu í gærkvöldi þegar Hreyfingin hætti stuðningi sínum við ríkisstjórnina og meðal annars þess vegna sitjum við hér og ræðum hugmyndir að stjórnarskrá sem stjórnlagaþing samþykkti, hundrað og eitthvað greinar sem margar eru góðar, aðrar ekki eins góðar. Ég óttast að þetta ferli kunni að skemma fyrir þeim góðu hugmyndum sem þar komu fram vegna þess að menn munu hafna þeim út af þessum nokkuð mörgu gölluðu og slæmu hugmyndum sem eru í hugmyndum stjórnlagaráðs.