140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:09]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég hef í fyrri ræðum fjallað um þær breytingartillögur sem búið er að leggja fram við þessa fyrirhuguðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Margar þeirra eru ágætar og góðra gjalda verðar og ég held að það sé kjörið að samhliða þessum spurningavagni sem ríkisstjórnin ætlar sér að fara fram með séu fleiri spurningar sem væri kjörið að leggja fyrir þjóðina og fá fram þjóðarvilja í fleiri málum.

Sú breytingartillaga sem ég er hér kominn að og ætla að fjalla um núna á vel við í ljósi atburða dagsins og þess sem gerðist hér í morgun. Það er breytingartillaga frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur sem felur það í sér að samhliða þessari þjóðaratkvæðagreiðslu fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem kannaður verði hugur landsmanna til utanríkisstefnu þjóðarinnar. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi frú forseta:

„Vilt þú að stjórnvöld dragi aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka?“

Svo eru þrír svarmöguleikar: Já, nei eða tek ekki afstöðu. Stjórnarliðar margir hverjir hafa haldið því fram að það sé ekki skynsamlegt að fara fram með þessa spurningu af tveimur ástæðum, í fyrra lagi sé ekki hægt að gera það vegna þess að aðildarviðræðum sé ekki lokið. Ég held að það sé vel hægt að spyrja þjóðina hvort hún vilji draga aðildarumsóknina til baka. Það upplýsist þá. Við heyrðum undir liðnum um störf þingsins í morgun hv. þm. Mörð Árnason segja að skilningur sinn væri sá að ekki væri hægt að fara fram með atkvæðagreiðslu nema að samningum væri lokið. Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir benti réttilega á það í sinni bókun sem hún rakti í morgun að það verði að liggja algjörlega skýrt fyrir hvað sé í boði, að Evrópusambandið sé í boði. Ég held að það sé kjörið að leyfa þjóðinni að koma að því að segja til um hvort hún vilji draga aðildarumsóknina til baka eða hvort hún vilji halda henni áfram. Er þjóðin sammála hv. þm. Merði Árnasyni eða er hún sammála hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur? Ég held að það sé kjörið að nota þetta tækifæri til að komast að því.

Menn hafa líka talað um að ekki sé hægt að fara fram með þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsóknina vegna þess að um eðlisólík mál sé að ræða. Meðal annars hefur hv. þm. Lúðvík Geirsson komið inn á það í ræðum. Varðandi það mál vil ég segja að fyrr á þessu þingi, fyrir páska, stóð vilji meiri hlutans til þess að þjóðaratkvæðagreiðslan um tillögur stjórnlagaráðs færi fram samhliða forsetakosningum. Þar var um tvö eðlisólík mál að ræða. Það náði ekki fram að ganga fyrir tilskilinn tíma en þá truflaði það ekki stjórnarliða að þar færu tvö eðlisólík mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er því ekkert til fyrirstöðu að eðlisólík mál fari saman í þjóðaratkvæðagreiðslu nú frekar en vilji meiri hlutans stóð til fyrir páska.

Það er ekki einungis hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sem hefur talað fyrir því undanfarið að það sé eðlilegt að þjóðin fái að koma að þessu máli og segja hug sinn. Það blasir við hverjum manni að það er engin pólitísk forusta í málinu. Það er ekki ríkur vilji úti í samfélaginu fyrir því að halda málinu áfram og það er mjög erfitt að utanríkisstefna þjóðarinnar njóti hugsanlega ekki meirihlutastuðnings á Alþingi Íslendinga og ekki meðal þjóðarinnar. Fleiri þingmenn hafa viðrað það að skynsamlegt væri að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort vilji væri til þess að halda aðildarviðræðum áfram. Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, hv. þm. Árni Páll Árnason og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir sem einnig er hæstv. ráðherra hafa öll, sem einstaklingar og þingmenn, fjallað um það undanfarið að skynsamlegt sé að fá fram þjóðarvilja í þessu máli. Vill þjóðin halda aðildarferli Íslands að ESB áfram eða vill hún það ekki? Þetta er einföld spurning og af því að það hefur komið fram töluverð gagnrýni á margar þær spurningar sem fyrir liggja í spurningavagni ríkisstjórnarinnar er rétt að taka fram að svo er ekki með þessa spurningu. Hún er mjög einföld og skýr, það er einfalt að taka afstöðu til hennar. Það er ekkert loðið í henni og ekkert því til fyrirstöðu að taka þetta samhliða. Nú reynir virkilega á hvort þeim sem talað hafa fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum, eins og Samfylkingin virðist gera á tyllidögum, sé alvara (Forseti hringir.) eða eru þjóðaratkvæðagreiðslur eingöngu nothæfar þegar það hentar málflutningi (Forseti hringir.) Samfylkingarinnar?