140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:15]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann minnist þess að sjálfstæðismenn lögðu fram tillögu þegar tillagan um að sækja um aðild að Evrópusambandinu lá fyrir þinginu, tillögu þess efnis að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort sækja skyldi um. Sú tillaga var felld. Ég er á þeirri skoðun að það hefði verið betra fyrir okkur öll hefði einfaldlega verið fallist á þessa hugmynd sjálfstæðismanna og sú þjóðaratkvæðagreiðsla farið fram á þeim tíma. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um að þetta hefði verið betra verklag.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann deili þeim áhyggjum með mér að sú aðferðafræði sem verið er að nota í þessari fyrirhuguðu þjóðaratkvæðagreiðslu sé til þess fallin að draga úr vilja fólks til lengri tíma til að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég held þessu fram vegna þess að mér finnst spennandi að nota þjóðaratkvæðagreiðslur í meira mæli en verið hefur hér á landi. Ef við förum hins vegar af stað hér með þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurningarnar eru það óljósar og ómarkvissar að flestu leyti að þær muni ekki skila beinum niðurstöðum mun áhugi almennings dvína sem og áhugi þeirra sem hafa virkilegan áhuga á að láta skoðun sína í ljós og hafa áhrif með því að taka þátt í slíkum þjóðaratkvæðagreiðslum. Þess mun ekki sjást stað í verkum á Alþingi eða í niðurstöðum hinnar miklu vinnu sem eftir er við að móta þær tillögur sem síðan eiga væntanlega að fara í atkvæðagreiðslu varðandi það hvernig ný ákvæði stjórnarskrár eiga að hljóma. Þetta eru ekki þannig spurningar. Það á ekki að kjósa um beint orðalag tiltekinna ákvæða í stjórnarskrá, það eru ekki lögð fram öll þau fjölmörgu atriði sem stjórnlagaráð lagði fram.

Telur hv. þingmaður að þessi aðferðafræði ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) muni hafa bein áhrif á áhuga fólks á því að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum?