140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:19]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að svara andsvari mínu og hlakka til að fá að heyra svarið við seinni spurningunni. Ég hef miklar áhyggjur af því hvert þetta mál muni leiða okkur og hvaða áhrif þetta muni hafa á framtíðina.

Ég ætla aðeins að fara nánar í það sem ég á við varðandi það að niðurstöðurnar verði ekki skýrar. Kjósandi mætir til dæmis á kjörstað og svarar 1. spurningunni: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“ með: Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar, eða: Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar.

Tillögur stjórnlagaráðs eru fjölmargar og hver einn og einasti kjósandi getur haft mismunandi afstöðu til mismunandi tillagna stjórnlagaráðs. Hvernig á kjósandinn að svara þessari spurningu? Á hann að fara í hlutfallslega greiningu á því hvort hann sé fylgjandi meiri hluta tillagna stjórnlagaráðs? Hvað mun kjósandinn gera? Eða ef hann er sérstaklega mikið á móti einni ákveðinni tillögu, mun hann láta það hafa þau áhrif á sig að hann muni segja nei? Ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar verður svo að meiri hluti kjósenda muni nota þá aðferðafræði, ef hann er á móti einhverri einni tillögu segi hann nei, verður það einfaldlega fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar. Mun þingið þá henda niðurstöðum stjórnlagaráðs eða ekki? Ég átta mig alls ekki á því hvert framhaldið á að verða vegna þess að niðurstaðan verður aldrei skýr.

Annað dæmi sem hægt er að taka er spurningin um þjóðareign:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“

Svarið getur verið já eða nei. Nú hafa menn mismunandi skilgreiningu á því hvað þjóðareign er og þetta er einn af aðalgöllunum við þessa spurningu. Í fræðunum er algjörlega ljóst að það á að orða spurningar (Forseti hringir.) á þann hátt að allir kjósendur skilji þær á sama hátt. Ég hef jafnframt áhyggjur af þessari spurningu í spurningavagninum.