140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég fagna því tækifæri að fá að ræða áfram um stjórnarskrána. Ég hef mikinn áhuga á henni og ber mikla virðingu fyrir henni og tel að hún eigi það skilið að menn ræði hana efnislega í hörgul. Mér finnst fráleitt, ef maður ber einhverja virðingu fyrir kjósendum, að senda drög að stjórnarskrá órædd til kjósenda sem þurfa þá að leggjast í gífurlega vinnu við að greina yfir 100 greinar.

Núna ætla ég að ræða um utanríkismál og ekki seinna vænna. 21. gr. núgildandi stjórnarskrár er eina greinin sem snýr að utanríkismálum. Í henni stendur, með leyfi forseta:

„Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki.“

Hvorki meira né minna. Nú gæti maður haldið að forsetinn geti þá bara skrifað undir samninga við Evrópusambandið og svo framvegis en svo er ekki. Í 13. gr. er þetta tekið burt, eins og allt annað sem forsetinn hefur heimild til samkvæmt stjórnarskránni. Þetta er það sem ég hef gagnrýnt hvað mest í núgildandi stjórnarskrá. Í 13. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.“

Það er þetta sem veldur svo miklum deilum um 26. gr., hvort forseti geti neitað að skrifa undir lög eins og hann gerði, án þess að láta ráðherra framkvæma það vald sitt. Þetta atriði er í raun ekki lagað í drögum stjórnlagaráðs.

Ég ætlaði að nota tímann til að ræða um tvær greinar í tillögum stjórnlagaráðs. Í 109. gr. segir m.a. að ráðherra eigi að hafa samráð við utanríkismálanefnd. Það er óbreytt og er ágætt, en svo segir í 110. gr., með leyfi forseta:

„Ráðherra gerir þjóðréttarsamninga fyrir hönd Íslands. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi, innsævi, landhelgi, efnahagslögsögu eða landgrunni, eða kalla á breytingar á landslögum, eða eru mikilvægir af öðrum ástæðum, nema samþykki Alþingis komi til.“

Þá virðist átt við einfalt samþykki. Það gæti þá verið að 35 þingmenn séu mættir á þingfundi og af þeim greiði 17 atkvæði, þannig að 17 alþingismenn gætu, við heppilegustu skilyrði, samþykkt slíka samninga. En sú grein sem við þurfum að horfa kannski mest á, sérstaklega við sem óttumst inngöngu Íslands í Evrópusambandið, er 111. gr. Í henni segir í 1. mgr., með leyfi forseta:

„Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.“

Þetta á einmitt við Evrópusambandið og ég hef getið þess áður í umræðunni, frú forseti. Ég vona að ég sé ekki sakaður um málþóf þótt ég endurtaki einstaka sinnum, vegna efnisins, sumar greinar.

Það er ekki einu sinni sagt hver það er sem má gera slíka samninga. Nú er ríkisstjórnin framkvæmdarvald hér á Íslandi þannig að hún framkvæmir og sennilega er það hún sem má gera svona þjóðréttarsamninga. En það stendur ekkert um það.

Svo er þetta reyndar dregið til baka í 2. mgr. en þar segir:

„Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.“

Áður en ég held lengra vil ég geta þess að Evrópusambandið var stofnað í þágu friðar og efnahagssamvinnu, það var stofnað á sínum tíma til að tryggja frið í Evrópu og ég verð að segja eins og áður að það hefur tekist. Það hefur verið friður innan vébanda Evrópusambandsins og þeirra þjóða sem þar taka þátt í meira en 60 ár. Það má segja að sé góður og merkilegur árangur af starfi Evrópusambandsins.

Svo er spurning hvað gerist ef engin slík lög eru sett, eins og talað er um í 2. mgr., um að afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds felst.

Í 3. mgr. sömu greinar segir, með leyfi forseta:

„Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.“

En hvað gerist ef Alþingi tekur ekki málið fyrir og það er ekki samþykkt? Þá virðist vera, samkvæmt 1. mgr., að stjórnarskráin (Forseti hringir.) leyfi slíkt framsal.