140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé nú fullmikið sagt hjá hv. þingmanni að ástæðan fyrir friði í Evrópu undanfarin 60 ár sé Evrópusambandið. Nefna má ýmsar ástæður fyrir því að haldist hefur friður í Evrópu, en það að mynda stór þjóðríki úr mörgum þjóðum hefur yfirleitt, sögulega séð, ekki verið til þess fallið að skapa frið til lengri tíma litið, þó að ég geri ekkert lítið úr því að yfirlýst markmið Evrópusambandsins sé að stuðla að friði og það vinni í þá veru. En sú fullyrðing hv. þingmanns að friður undanfarin 60 ár sé afleiðing af Evrópusambandinu, a.m.k. mátti skilja hv. þingmann sem svo, held ég að sé kannski helst til mikið í lagt.

Af því að hv. þingmaður nefndi Evrópusambandið er ekki hægt annað en spyrja hann um álit hans á umræðunni sem varð hér undir liðnum Störf þingsins um þetta mál annars vegar og um umsókn um aðild að Evrópusambandinu hins vegar, eftir að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir upplýsti að hún teldi rétt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr en síðar um hvort Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið.

Sér hv. þingmaður einhverja leið fyrir fólk að halda því fram annars vegar að verið sé að vega að lýðræðislegum rétti fólks til að hafa áhrif á gang mála með því að halda ekki þá mjög svo óljósu skoðanakönnun sem til stendur af hálfu meiri hlutans að halda um stjórnarskrána en á sama tíma segja að það sé fráleitt að greiða atkvæði um aðild að Evrópusambandinu á þessum tímapunkti vegna þess (Forseti hringir.) að menn hafi ekki nógu miklar upplýsingar?