140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held því ekki fram að Evrópusambandið hafi skaðað friðinn í Evrópu en það sem ég geri athugasemd við er að það mátti lesa úr orðum hv. þingmanns þá skoðun að það hefði orðið stríð í Evrópu ef ekki hefði verið fyrir Evrópusambandið. Það held ég að sé fráleit ályktun, ef ég hef skilið hv. þingmann rétt hvað það varðar. Ýmsar ástæður eru fyrir því að friður hefur haldist í löndum Evrópusambandsins þó að það hafi nú stundum verið tæpt á tímum kalda stríðsins.

Hvað varðar stöðuna núna er ekki sérlega friðvænlegt í Grikklandi. Hættan á að þar taki aftur við völdum herforingjastjórn hefur ekki verið jafnmikil um áratugaskeið og óeirðir á götum orðnar mjög tíðar. Þær þvingunaraðgerðir sem Grikkir hafa verið beittir eru að mínu mati ekki til þess fallnar að gera ástandið þar friðvænlegra. Svo má líka nefna að aðkoma Evrópusambandsins að málum í Kosovo-héraði og í Bosníu var nú ekki sérstaklega myndugleg, a.m.k. framan af, og Bandaríkjamenn gripu þar inn í þó að þeir væru þar að fara inn á evrópskt áhrifasvæði. Telur hv. þingmaður til dæmis að Habsborgaraveldið Austurríki-Ungverjaland hafi verið til þess fallið að gera Evrópu friðvænlegri?

Nú er ég kominn aðeins út fyrir efnið, frú forseti, en það er einfaldlega vegna þess að ég sætti mig alveg við svör hv. þingmanns að öðru leyti, þ.e. varðandi samanburðinn á því að fara annars vegar í atkvæðagreiðslu um stöðu mála í aðildarviðræðum við Evrópusambandið eða hugsanlega aðild að Evrópusambandinu og svo hins vegar þessa mjög svo óljósu atkvæðagreiðslu sem menn gera sér almennt ekki grein fyrir hverju á að skila varðandi stjórnarskrána.