140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegur forseti. Mig langar að halda aðeins áfram þar sem síðustu ræðumenn skildu við varðandi Evrópusambandið og þær spurningar sem eðlilegt væri að spyrja um í því sambandi. Ég vil svo sannarlega taka undir og hvetja til þess að þeirri spurningu í tillögu sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur lagt hér fram, um hvort menn vilji að stjórnvöld haldi áfram aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins, verði bætt við þær spurningar sem spyrja á um í þessari atkvæðagreiðslu ef þingið ákveður að fara þá leið.

Ég hef áður sagt að þetta ferli, og ég ætla aðeins að rifja það upp, sem þetta mál endaði í er mjög óheppilegt. Ferlið er að mínu viti ekki í nokkru einasta samræmi við þær hugmyndir sem upphaflega voru upp á borðinu. Hins vegar er alveg ljóst — auðvitað verður að virða það að einhverjir þingmenn voru mjög áhugasamir um að gera þessa tilraun með stjórnlagaráðið og vildu því fara þá leið — að það sem Framsóknarflokkurinn samþykkti á sínum tíma að yrði gert var stjórnlagaþing með bindandi niðurstöðu. Það kom svo í ljós og var á það bent að bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla með þessum hætti stæðist ekki gildandi stjórnarskrá, þannig að sú tillaga hjá okkur gekk því miður ekki upp. Hitt er svo annað að stjórnlagaþingskosningin klúðraðist og þar kom fram berlega að landið sem eitt kjördæmi og persónukjör gengur ekki heldur. Það var því verulegur munur á því ferli sem var svo tekið upp og því sem við stefndum að í upphafi að mínu mati.

Það að bæta við þeirri spurningu sem ég nefndi hér á undan, frú forseti, er mjög í anda þess sem hefur komið fram í ræðum nokkurra þingmanna, þar á meðal nokkurra stjórnarþingmanna, um að það verði að fá einhverja niðurstöðu í Evrópusambandsmálið fyrir næstu þingkosningar. Hér er hreinlega verið að gefa tækifæri á því að svo verði með því að samþykkja þessa tillögu.

Það er líka mikilvægt, frú forseti, úr því að við ræðum þetta, að í tillögum stjórnlagaráðs er að mínu viti verið að opna meira á framsal valds til alþjóðlega stofnana o.s.frv. Það þarf vitanlega að ræða það líka í þessu samhengi. Ég vil að það komi skýrt fram að þó svo að við séum mörg hver andsnúin því að Ísland gangi í Evrópusambandið og andsnúin því að opna á frekara framsal valds eða auðvelda það, þá eru mörg okkar hins vegar á því að Íslendingar eigi að auka þátttöku sína í erlendu samstarfi. Það er gott fyrir Íslendinga að víkka sjóndeildarhringinn og taka þátt í samstarfi þar sem setið er við sama borð og jafnræðis gætt og allt það en að fara að fela sig í hendur yfirþjóðlegu valdi með einhverjum hætti eða ganga í ríkjabandalag þar sem við verðum einhver aukastafur er eitthvað sem er alls ekki til í dæminu, svo það sé nú bara sagt.

Auðvitað saknar maður þess, frú forseti, að stjórnarliðar sérstaklega og fylgjendur þessarar atkvæðagreiðslu skuli ekki hafa komið í málefnalega umræðu við okkur sem erum að ræða um einstakar greinar og breytingartillögur. Ég hefði viljað taka hér umræðu við stjórnarliða um til dæmis þessa breytingartillögu um að kanna hug þjóðarinnar varðandi Evrópusambandið. Af hverju taka menn ekki þessa umræðu og velta fyrir sér hvort þetta gangi upp eða ekki? Af hverju fjalla menn ekki um einstakar greinar í tillögum stjórnlagaráðs? Hverjar eru skoðanir stjórnarliða til dæmis á 23. gr. um heilbrigðisþjónustu, þar sem talað er um að allir eigi rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er? Ég mundi vilja ræða hér við stjórnarliða um hvað þetta þýði. Hvernig á að ná þessu markmiði? Eru menn tilbúnir til að stórauka útgjöld til heilbrigðismála og lýðheilsumála til að ná svona markmiði? Að minnsta kosti þarf að fá skoðanir og rökræða slík mál. Það virðist sem kappið sé svo mikið. Ég veit í rauninni ekki hvað keyrir það kapp áfram, það er alla vega allt annað en vandvirk vinnubrögð og heilbrigð umræða að keyra fram atkvæðagreiðslu um þessar tillögur og einhverjar aukaspurningar.

Frú forseti. Ég ítreka að það þarf að nota tækifærið núna og spyrja um Evrópusambandsmálið með einhverjum hætti, það þarf að komast til botns í því hvort þjóðin vilji fara þessa leið eða ekki. Það getur vel verið að einhvers staðar sé samningsflötur á þessu öllu saman en þessi spurning á fullan rétt á sér eins og aðrar spurningar sem hér hafa verið lagðar fram.