140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að beina einni spurningu til hv. þingmanns. Mín afstaða í þessu máli er sú að ég hef töluverðar áhyggjur af því hvaða áhrif þessi þjóðaratkvæðagreiðsla, verði hún að veruleika, muni hafa á þjóðaratkvæðagreiðslur framtíðarinnar. Nú er ég ein af þeim sem finnst mjög spennandi að viðhafa þjóðaratkvæðagreiðslur hér á landi í meira mæli en verið hefur en til þess að svo megi verða verða þær þjóðaratkvæðagreiðslur sem hér fara fram að skila niðurstöðum sem kjósendur sjá síðan að hafa einhver áhrif.

Margar þeirra spurninga sem meiningin er að spyrja kjósendur að eru þess eðlis að erfitt er að sjá að þær muni skila skýrum niðurstöðum sem hægt verður að vinna eftir. Eins er vandséð hvernig verður unnið eftir niðurstöðum þessa spurningavagns, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kallar þessa þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ef við tökum bara fyrstu spurninguna þar sem spurt er hvort viðkomandi kjósandi vilji að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá, og þeirri spurningu er hægt að svar með já-i eða nei-i, þá er erfitt að sjá þar sem tillögur stjórnlagaráðs eru fjölmargar hvernig kjósandi á að svara spurningunni, hann er t.d. mikið á móti nokkrum tillögum stjórnlagaráðs en ágætlega fylgjandi öðrum. Hvernig á kjósandinn að svara þessari spurningu?

Þegar tillögur stjórnlagaráðs eru fjölmargar er maður væntanlega ekkert endilega sammála þeim öllum eða andvígur þeim öllum.

Mig langar að vita hvort hv. þingmaður deilir þessum áhyggjum með mér.