140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns, um það hvort þetta hefði áhrif á aðrar þjóðaratkvæðagreiðslur og samspil þeirra, þá var sláandi í umræðunni hér í morgun að þeir þingmenn sem tala gjarnan hæst um lýðræðisást og að eiga hið margfræga „samtal við þjóðina“ virðast ekki vilja taka umræðuna um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar vegna þess að það vantar meiri upplýsingar og frekari upplýsingar þurfi að liggja fyrir áður en þeir virðast treysta þjóðinni af lýðræðisást sinni til að taka upplýsta ákvörðun um það.

Aftur á móti virðast þeir treysta þjóðinni til að taka afstöðu til alls kyns mála er varða stjórnarskrána sem að mínu viti eru mjög tilfinningalegs eðlis. Margar ef ekki flestar af þeim spurningum sem meiri hlutinn leggur til munu menn taka ákvörðun um af tilfinningu, t.d. um það hvort þeir vilji hafa ákvæði um þjóðkirkjuna í stjórnarskrá. Það stendur ekkert hvernig ákvæði eða hvaða ákvæði heldur er þetta svona tilfinning: Vil ég hafa þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskránni? Það verður tilfinningaleg ákvörðun. Þjóðin getur auðvitað greitt atkvæði um það. Spurningin er síðan fyrir þá sem eiga að taka við niðurstöðunni hvað hún þýðir.

Eins var ég búinn að ræða í andsvari fyrr í dag um jöfnun atkvæðisréttar. Ég held að flestir skrifi upp á það og það sé líka tilfinningalegs eðlis, mönnum finnst jöfnun atkvæðisréttar eðlileg. Þýðir það þá að menn séu að tala um að fara í sömu súpuna, vil ég segja, og þegar kosið var til stjórnlagaþings, þ.e. landið eitt kjördæmi og persónukjör með þeim afleiðingum að ekki valdist sanngjarn þverskurður af þjóðinni milli landsbyggðar og höfuðborgarinnar og þéttbýlisins á suðvesturhorninu? (Forseti hringir.)

Ég held að þetta sé umræðuefni sem eigi eftir að skoða og sé alls ekki upplýst.