140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég sé að ég var fullfljótur á mér að gleðjast yfir því fyrr í dag að hv. þm. Lúðvík Geirsson tæki þátt í umræðunni og telja að það væri vísir að því að nú mundi umræðan breytast og menn tækju hér málefnalega umræðu, en hv. þingmaður kom einmitt inn á að nauðsynlegt væri að taka umræðu um nokkra þætti. Nú þegar það er upplýst og ef það reynist rétt að búið sé að taka alla stjórnarliða úr þingsal og setja þá inn á lokaða þingflokksfundi, er það auðvitað algjörlega óásættanlegt fyrir okkur sem erum að bera fram spurningar og viljum fá málefnalega umræðu við meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ekki síst og þá stjórnarliða sem vilja taka þátt í umræðunni og að aðrir sem hér hafa kannski talað hæst um lýðræðisást og beint lýðræði væru til staðar í salnum eða ættu þess kost að vera í salnum en væru ekki bundnir á lokuðum þingflokksfundum. Ég tek undir þá ósk sem hér hefur komið fram að það verði upplýst hvort um slíka fundi sé að ræða (Forseti hringir.) og tek undir þá tillögu forseta að þingfundi verði frestað ef svo reynist vera.