140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vek athygli virðulegs forseta á því að enn hefur ekki komið fram hvort þingflokksfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er lokið eða ekki. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sýndi sig hér í ræðustól og sagðist ekki vera á þingflokksfundi en það kom hins vegar ekki fram í máli hv. þingmanns hvort slíkur fundur stæði yfir, fundur sem hv. þingmaður er þá væntanlega að skrópa á, eða hvort honum sé lokið. Upplýst var um það í fréttum Ríkisútvarpsins að þingflokkar stjórnarflokkanna ætluðu að funda klukkan hálffjögur og þrátt fyrir það var ekki gert hlé á þingfundi. Það sýnir kannski hversu lítinn áhuga þingmenn stjórnarflokkanna hafa á efnislegri umræðu um þetta mál, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi hér áðan, að maður kannast ekki við að hafa heyrt einn einasta þingmann stjórnarliðsins lýsa skoðun sinni á einni einustu breytingartillögu hér úr ræðustól þingsins.