140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst fremur ógeðfellt að þingmenn geti komið hér upp í ræðustól án þess að fá athugasemd frá hæstv. forseta um að leggja mat á efnisinnihald þeirra ræðna sem þingmenn hafa haldið hér. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom hér upp og taldi að þær ræður sem væru fluttar hér í þingsal væri misefnislegar og misgáfulegar. Mér finnst þetta ekki samræmast þingsköpum, frú forseti, vegna þess að hér ríkir málfrelsi. En þetta er eitthvað sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur gjarnan tamið sér að vera hálfgerður uppalandi í þinginu og gagnrýna aðra þingmenn með þessum hætti og leggja mat samkvæmt eigin stiku á hvað sé efnislegt og hvað sé málefnalegt og hvað ekki.

Virðulegi forseti. Þetta hlýtur forsætisnefnd að taka fyrir, hvað má og hvað ekki, fyrst einn (Forseti hringir.) þingmaður getur farið fram með svona.