140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Fyrst hv. þingmenn eru farnir að gefa einkunnir vona ég að ég falli í hóp þeirra sem flytja efnismikla ræðu, það er bara mín von. (VigH: Álfheiður gekk úr þingsal. Þú færð ekki dóm.) Hún gekk hjá, ég fæ ekki dóm, það er slæmt.

Ég ræddi áðan um utanríkismál og ég náði því miður ekki að klára það. Ég ætla sem sagt að reyna núna að komast yfir utanríkismálin og breytingar á stjórnarskrá. — Frú forseti. Er eitthvað að klukkunni, fæ ég ekki fimm mínútur? Já, nú er þetta komið.

(Forseti (RR): Klukkan er komin í lag fyrir hv. þingmann.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir. Það sem ég ætlaði í fyrsta lagi að ræða betur er 3. mgr. 109. gr. í tillögum stjórnlagaráðs. Ég tel mjög mikilvægt, frú forseti, að þjóðin viti af þessu. Hér stendur, með leyfi frú forseta:

„Ákvörðun um stuðning við aðgerðir sem fela í sér beitingu vopnavalds, aðrar en þær sem Ísland er skuldbundið af samkvæmt þjóðarétti, skal háð samþykki Alþingis.“

Þetta segir í tillögum stjórnlagaráðs. Þetta er að sjálfsögðu, geri ég ráð fyrir, endurómun af ákvörðun um að styðja aðgerðir Bandaríkjamanna í Afganistan og víðar og speglar svona ákveðinn tíðaranda. En hvað gerist ef ráðist er á Ísland? Þá hafa menn yfirleitt ekki langan tíma til að setjast niður á fundum Alþingis og fara að ræða: Heyrðu, hvað gerum við nú? Hvað ætlum við að gera ef ráðist er á Ísland? Nú er það ekkert alveg fjarlægur möguleiki. Það hefur komi fyrir í mannkynssögunni að ráðist hefur verið á þjóðir. Ég mundi vilja að þessu yrði breytt þannig að hægt væri að bæta við „eða til varnar landinu“, þ.e. ef verja þarf landið þurfi ekki endilega ákvörðun Alþingis. Þetta finnst mér mjög mikilvægt (Gripið fram í.) að ekki þurfi að kalla saman fundi í Alþingi samkvæmt stjórnarskrá við innrás.

Frú forseti. Ég vil benda á að þetta er stjórnarskráin sem við erum að ræða um og það má ekki brjóta hana.

Ég mundi vilja að þetta yrði lagað. Nú veit ég ekki hvar það ætti að gerast vegna þess að við erum núna að ræða ferli þar sem þetta fer til atkvæðagreiðslu hjá þjóðinni. Ef einhver bendir á þetta þegar menn greiða um þetta atkvæði þá kynni að vera að einhverjir greiddu atkvæði gegn allri stjórnarskránni út af þessu litla atriði sem ég benti hér á sem er sjálfsagt að laga.

Þá kem ég að breytingum á stjórnarskrá. Þær eru nefndar í 113. gr. og eru afskaplega auðveldar. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp til breytingar á stjórnarskrá skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.“

Einfaldur meiri hluti á Alþingi getur samþykkt breytingu á stjórnarskrá. Það getur meira að segja komið upp sú staða að það séu 32 þingmenn í salnum og þá gætu 17 þingmenn samþykkt breytingu á stjórnarskrá. Svo kastar nú tólfunum þegar kemur að því hvað gerist svo:

„… skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi einum mánuði og í síðasta lagi þremur mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi.“

Engin skilyrði eða þröskuldar. Ef lítill áhugi er á málinu nema hjá þeim sem hafa sérstakan áhuga á þessu einstaka máli, segjum kosningaþátttakan yrði 30%, gætu í rauninni 16% þjóðarinnar samþykkt breytingar á stjórnarskrá. Mér finnst þetta algjörlega ótækt, frú forseti, vegna þess að ég tel að stjórnarskrá eigi að vera sáttmáli þjóðarinnar, eigi að njóta almennrar samþykktar hjá þjóðinni.

Svo segir enn frekar:

„Hafi 5/6 hlutar þingmanna samþykkt frumvarpið getur Alþingi þó ákveðið að fella þjóðaratkvæðagreiðsluna niður …“

Sem sagt stjórnarskráin leyfir það að ef 5/6 hlutar þingmanna þ.e. ef 55 þingmenn eða svo, 53 þingmenn samþykkja breytingar á stjórnarskrá þá sé það orðin stjórnarskrá.

Frú forseti. Það þarf ekkert að spyrja þjóðina. Mér finnst þetta allt of létt. Ég geri kröfu til þess að þetta verði lagað áður en við förum í þjóðaratkvæðagreiðslu með þetta.