140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:41]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef í fyrri ræðum mínum einkum og sér í lagi verið að ræða um hugtakið þjóðareign á náttúruauðlindum. Ég hef látið ógert að velta upp hinu hugtakinu sem kannski skiptir ekki síður máli í þessu samhengi sem er hugtakið auðlind. Nú stendur til að senda til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu hvort þjóðin segi já eða nei við því að það eigi að vera þjóðareign á öllum náttúruauðlindum. Þá er mjög mikilvægt að einhvers konar sameiginlegur skilningur sé á því hvað þessi hugtök þýða. Ég hef bent á að hugtakið þjóðareign er mjög loðið og það hefur ýmsa galla og nær væri að orða þetta skýrar, eins og til dæmis að spyrja þjóðina hvort sé eðlilegt að allar náttúruauðlindir séu í ríkiseign og með óframseljanlegum hætti eða eitthvað þess háttar. Þá er alveg skýrt hver fer með eignarhaldið o.s.frv.

Spurningin um hvernig eigi að skilgreina náttúruauðlind skiptir verulega miklu máli og það er ekki víst að allir leggi nákvæmlega sama skilning í það. Það sem strax skiptir máli er þetta: Erum við að tala um að allar þekktar náttúruauðlindir sem eru núna til staðar mundu falla undir þetta ákvæði eða, sem ég tel reyndar líklegt að hér sé verið að ræða um, þær auðlindir sem við eigum eftir að uppgötva?

Virðulegi forseti. Það er ekki þannig, og ég ætla að leyfa mér að segja guði sé lof, að Íslendingar séu búnir að uppgötva allar náttúruauðlindir sem hér eru. Tæknibreytingar, breytingar á mörkuðum o.s.frv. gera það að verkum að hlutir sem við töldum að hefðu lítið eða jafnvel ekkert verðgildi verða verðmætir. Náttúruauðlindir sem menn litu fram hjá fá allt í einu mikið verðgildi.

Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Meðal annars gerist þetta þannig að einstaklingar hætta fjármunum sínum og verja tíma sínum í að þróa auðlind og finna leið til að nýta hana, annars vegar til að leita að mörkuðum og hins vegar til að þróa tækni til að tryggja að kostnaðurinn við að nýta auðlindina sé lægri en sá afrakstur sem í boði er eða mögulegur er.

Þetta er alveg gríðarlega mikilvægt mál og auðlegð þjóða hvílir mjög á því að þessi, ef ég leyfi mér að sletta, virðulegi forseti, prósess geti gengið þannig fyrir sig að það sé hvati hjá þjóðinni eða hjá einstaklingunum til að leita nýrra auðlinda og þróa þær. Þá skiptir máli að menn hafi einhverja tryggingu fyrir því hvernig síðan verði farið með eignarréttindi á slíkum auðlindum.

Það má augljóst vera, frú forseti, að ef fyrirkomulagið er þannig að allar auðlindir sem fá verðmæti verða sjálfkrafa eign ríkisins gefur augaleið að það dregur úr hvatanum hjá einstaklingunum til þess að leita nýrra auðlinda og fjárfesta og taka áhættu og verja tíma sínum til að þroska og þróa slíkar auðlindir.

Þjóð sem á jafnmikið undir því að nýta auðlindir landsins, eins og við Íslendingar, hlýtur að vilja hafa alla þá umgjörð utan um auðlindanýtinguna sem hvetur til þess að menn leiti nýrra auðlinda og geri þær verðmætar. Auðlindir eru ekki verðmætar í sjálfu sér, auðlindir verða verðmætar vegna þess að menn finna leiðir til að nýta þær með minni tilkostnaði en sá afrakstur sem myndast.

Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það skipti máli, úr því að spyrja á þjóðina, að það komi alveg skýrt fram að ekki sé bara verið að tala um þær auðlindir sem nú eru ekki í einkaeign eins og lagt er upp með, heldur líka allar þær auðlindir sem kunna að finnast á Íslandi, kunna að verða þróaðar, verði sjálfkrafa ríkiseign, af því að ég tel augljóst af ummælum hv. stjórnarþingmanna að sá skilningur sem lagður er í hugtakið þjóðareign sé sami og ríkiseign.

Ég vil að þetta sé alveg skýrt. Þetta þarf að koma skýrt fram þannig að þegar þjóðin er spurð þessarar spurningar liggi fyrir einhvers konar sameiginlegur skilningur á þessu. Því miður er spurningin allt of almennt og allt of óljóst orðuð hvað þetta varðar til þess að það geti komið frá þjóðinni einhvers konar leiðsögn sem Alþingi getur tekið og unnið með án þess að hér verði endalaust deilt um nákvæmlega hvað í svarinu var fólgið. Ef svarið verður já við þessari spurningu, þýðir það um leið að þjóðin hafi sagt að allar auðlindir sem kunna að finnast í framtíðinni eigi líka (Forseti hringir.) að verða ríkiseign eins og um er talað?