140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:48]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hreyfir hér einni af grundvallarspurningum stjórnmála á Vesturlöndum um langa hríð, þ.e. um eignarhald auðlinda. Einkum hafa menn tekist á um eignarhald á landi, en í okkar tilfelli, á Íslandi, höfum við á undanförnum áratugum tekist á um eignarréttindi varðandi sjósóknina. Í fyrsta lagi höfum við þurft að horfast í augu við það að sjósóknin er takmörkuð endurnýjanleg auðlind. Menn hafa áttað sig á því og skilja að það þýðir ekkert að hafa opinn aðgang að auðlindinni, þar með mundum við sóa allri auðlindarentunni. Þessa umræðu þekkir hv. þingmaður jafn vel og ég.

Ég er þeirrar skoðunar að í því tilviki sem hv. þingmaður tilgreinir, þ.e. fiskveiðunum á Íslandsmiðum, hafi íslenska ríkið fullveldisrétt yfir fiskstofnunum, það geti meinað til dæmis mönnum af erlendu bergi brotnum að stunda hér veiðar, það hafi ákvörðunarrétt um heildarafla o.s.frv. en síðan sé affarasælast fyrir þessa þjóð að hafa eignarrétt á nýtingarréttinum, hann sé framseljanlegur, geti gengið kaupum og sölum, sé veðsetjanlegur o.s.frv. Þannig myndum við auð og sá auður nýtist síðan bæði til að standa undir endurnýjun í þessari grein, þ.e. á framleiðslutækjunum, og hins vegar til fjárfestinga annars staðar. Smám saman verða þjóðir ríkar nákvæmlega þannig. Þetta á ekki bara við um sjávarútveg, þetta á við um alla auðlindanýtingu.

Það sem ég var að benda á í minni ræðu, virðulegi forseti, er að auðlindirnar sem við þekkjum núna eru ekki þær einu heldur eiga auðlindir eftir að verða til. Það sem ég finn varðandi þá spurningu sem er lögð hér upp er að það þarf að vera á hreinu að ekki sé bara átt við þær auðlindir sem við þekkjum núna, heldur að við ætlum að taka upp það fyrirkomulag að allar auðlindir sem finnast í framtíðinni verði sjálfkrafa samkvæmt stjórnarskrá (Forseti hringir.) eign ríkisins.