140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að þetta er meginumræða. Ég hef grun um að hvatinn að breytingu á stjórnarskránni sé að hluta fólginn í þessu. Mjög margir setja á oddinn varðandi breytingu á stjórnarskránni hvernig tekst að leysa vandamál um eignarhald á aflahlutdeild og kvóta.

Það var ríkið sem takmarkaði aðild að auðlegðinni, það var ríkið sem setti lög og reglur sem takmörkuðu aðgang að auðlindinni. Á ekki ríkið í rauninni réttinn, þ.e. á það ekki að fá þann auð sem myndast þegar aðgangur er takmarkaður? Það er takmörkunin á aðganginum sem býr til auðinn sem felst í fiskveiðiauðlindinni eða því sem menn kalla fiskveiðiauðlind. Eru þá ekki rök fyrir því að ríkið eigi þetta í einhverjum skilningi?

Hv. þingmaður kom ekki inn á það sem ég spurði hann um. Hvernig á að sætta sjónarmið þeirra sem segja að kvótinn sé sameign þjóðar í einhverjum skilningi? Sameign er óljóst hugtak og þjóð er óljóst hugtak og auðlind er líka óljóst hugtak. Hvernig sér hv. þingmaður lausn á því að sætta þessar mismunandi skoðanir og mismunandi fylkingar? Eða er engin ástæða til þess?

Nú finnst mér nefnilega að fylgi þeirra sem vilja að fiskveiðiauðlind sé í eigu þjóðarinnar, sameign þjóðarinnar, hafi vaxið bæði á þingi og eins úti í þjóðfélaginu. Sennilega hangir það saman við aukningu á Reykjavíkursvæðinu sem á lítinn kvóta á hvern íbúa. Er ástæða til að sætta þessi sjónarmið?