140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Við skulum hafa hugföst nokkur grundvallaratriði um þetta mál. Nokkur atriði standa upp úr eftir allmikla umræðu. Í fyrsta lagi virðist ljóst að það er til staðar vilji hjá líklega öllum þingmönnum til að gera verulegar breytingar á stjórnarskránni. Jafnframt er nú tækifæri til að ráðast í mjög umfangsmiklar breytingar sem ekki var mögulegt að gera áður. Menn eru með öðrum orðum miklu opnari fyrir því að ráðast í slíka endurskoðun en áður var. Það er því mjög mikilvægt að nýta það tækifæri sem blasir við, tækifærið sem felst í því að í þinginu er til staðar almennur vilji til að ráðast í allsherjarendurskoðun á stjórnarskránni og bæta þau ákvæði hennar sem þarf að aðlaga breyttum tímum eða hafa reynst á einhvern hátt gölluð, jafnframt auðvitað að bæta við því sem fólki þykir upp á vanta. Þar af leiðandi er mjög skaðlegt fyrir málið ef þetta tækifæri er ekki nýtt en þess í stað farið með breytingar á stjórnarskrá sem lið í pólitískum hrossakaupum, breytingar á stjórnarskrá gerðar að leiksoppi í pólitískri stöðu ríkisstjórnarinnar.

Þegar menn hlusta á umræðu þeirra fáu stjórnarliða sem hafa tjáð sig um málið í þinginu, nú síðast var það líklega bara í umræðu um störf þingsins því að þátttaka í umræðu um málið sem slíkt hefur verið afar takmörkuð hjá stjórnarliðum, eða ef menn fylgjast með því hvað þeir hafa sagt í fjölmiðlum eða annars staðar á opinberum vettvangi virðast því miður margir líta á þetta mál fyrst og fremst sem tækifæri til að koma nokkrum vinsælum pólitískum frösum á framfæri; frösum á borð við alla þá ofnotuðu frasa er varða yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að hún sé best til þess fallin að verja lýðræðislegan rétt þegar svo augljóst er af sögu undanfarinna ára að því er þveröfugt farið.

Í umræðum um störf þingsins áðan varð málflutningur ríkisstjórnarinnar og það hversu þversagnakenndur hann er augljósara en nokkru sinni fyrr. Menn héldu því fram, og jafnvel sömu þingmennirnir, að það væri spurning um lýðræðislegan rétt almennings að haldin yrði atkvæðagreiðsla nákvæmlega á þann hátt sem stjórnarmeirihlutinn sér fyrir sér með þessum spurningum sem menn hafa ekki einu sinni haft fyrir að útskýra almennilega í þinginu eða taka þátt í umræðu um hvers vegna verða að vera eins og þær eru en fullyrtu á sama tíma að ómögulegt væri að ráðast í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið um hvort Ísland ætti að halda umsókn til streitu og ganga í Evrópusambandið.

Annars vegar erum við með mál þar sem grundvallarstaðreyndirnar liggja fyrir eins og Evrópusambandið sjálft þreytist ekki á að reyna að benda Íslendingum á, hefur jafnvel varað við því að hér sé talað um samningaviðræður, vegna þess að það gefur til kynna að verið sé að semja um eitthvað. Út á það gangi viðræðurnar ekki, þær gangi út á það með hvaða hætti umsóknarríkið ætli að aðlaga sig Evrópusambandinu svoleiðis að það sé alveg ljóst hvað felst í Evrópusambandsaðild. Samt heldur fólk því fram að það skorti upplýsingar til að réttlætanlegt sé að setja það mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Um leið er því haldið fram að stjórnarskráin, raunar ekki stjórnarskráin heldur drög að tillögum um breytingar á stjórnarskrá sem munu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu taka breytingum og fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu hugsanlega líka, sé mál sem sé tilbúið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Líklega hefur ekkert afhjúpað jafnrækilega hversu lítil innstæða er fyrir öllum lýðræðisfrösunum sem stjórnarliðar hafa borið fyrir sig í þessari umræðu. Höfum þá staðreynd í huga að nú er ríkur vilji í þinginu til að ráðast í breytingar á stjórnarskrá. (Forseti hringir.) Nýtum það tækifæri í stað þess að gera stjórnarskrána að leiksoppi vegna pólitískrar stöðu ríkisstjórnarinnar.