140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Nú má ætla að nokkuð fari að styttast í þessari umræðu. Við í stjórnarandstöðunni höfum lagt áherslu á að rekja þá galla sem við teljum á þeirri hugmynd og aðferð sem verið er að fara með þessari tillögu. Tillagan gengur út á að farið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir 20. október um tilteknar spurningar, annars vegar að spurt verði hvort fólk styðji það að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá sem síðan fær eðlilega meðferð mála í þinginu og hins vegar fimm tilteknar spurningar sem allar hafa ákveðna snertifleti við stjórnarskrártillögurnar en eru þó almennt orðaðar, opnar og vísa ekki til beinna ákvæða þar. Eins og við höfum bent á mun niðurstaðan því ekki verða mjög leiðbeinandi heldur háð því að verða túlkuð á alla enda og kanta. Það er það sem við höfum áhyggjur af.

Þess vegna hefur áhersla okkar sjálfstæðismanna verið á það að ef ætlunin er að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu verði það einhvers konar endapunktur í ferlinu en ekki meðan tillögurnar eru í miðri vinnslu. Það mætti færa góð og gild rök fyrir því að eðlilegt væri að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og að hún væri þá lokapunktur í ferli stjórnarskrárbreytinga en þjóðaratkvæðagreiðsla í miðri vinnunni væri út í bláinn. Það er meginafstaða okkar í þessu, og meginandstaða okkar við málið byggir á þeirri forsendu.

Eins og fram hefur komið höfum við, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, lagt fram nokkrar breytingartillögur sem líta má á sem nokkurs konar varatillögur, tillögur sem við teljum eiga heima í ályktuninni verði hún samþykkt. Við leggjum áherslu á að þingið felli þessa þingsályktunartillögu en við gerum okkur grein fyrir því að það getur farið hvernig sem er og jafnvel gæti svo farið að tillagan yrði samþykkt af meiri hluta þingsins. Þá segjum við sem svo: Ef farið verður í atkvæðagreiðslu af því tagi sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir teljum við réttara að bæta við þeim spurningum sem við leggjum hér til. Þar vil ég draga þrjár sérstaklega fram, í fyrsta lagi að spurt verði um málskotsrétt forseta, í öðru lagi um þátt forseta í stjórnarmyndun og í þriðja lagi um fullveldisframsal.

Nú hafa komið fram fjöldamargar aðrar breytingartillögur og án þess að ég hafi haft tök á að rýna þær allar líst mér vel á sumar, síður á aðrar, en áskil mér rétt til að taka afstöðu til þeirra hverrar fyrir sig eftir atvikum.

Meginafstaðan er sem sagt sú af hálfu okkar sjálfstæðismanna að við teljum óráð að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu stigi máls. Við teljum að það verði ekki til þess að einfalda ferlið. Við teljum að þetta sér frekar til þess fallið að rugla málin og það birtist ekki síst í því að á sama tíma og þjóðaratkvæðagreiðsla verður í undirbúningi og umræður eiga sér stað um hana og þau mál sem þar á að taka afstöðu til verði nokkrir lögfræðingar að störfum við að endurskoða eða lagfæra tillögur stjórnlagaráðs út frá lagatæknilegum forsendum. Eins og ég rakti í ræðu hér í gærkvöldi mun það óhjákvæmilega leiða til einhverra breytinga á þessum tillögum. Menn geta verið þeirrar skoðunar að slíkar lagatæknilegar breytingar geti verið bæði meiri háttar og minni háttar en óneitanlega munu lögfræðilegu ráðgjafarnir koma með einhverjar tillögur til breytinga, ella væri til lítils að leita til þeirra. Þeir hljóta út frá sinni fræðilegu þekkingu og kunnáttu að koma með tillögur til breytinga. Það verður síðan vandi okkar þingmanna að greina hvað af því er efnislegt og hvað lagatæknilegt. (Forseti hringir.)

Þetta ferli á sem sagt að setja upp á sama tíma og fólk á að greiða atkvæði um stjórnlagaráðstillögurnar óbreyttar. Þetta er mjög furðuleg röð á hlutunum og skýrir andstöðu okkar við málið í megindráttum.