140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mér skilst að það sé búið að gera samkomulag um að ljúka þessari umræðu. Mér þykir það miður því að ég á mjög margt eftir órætt í tillögum stjórnlagaráðs. Ég tel nauðsynlegt að þjóðin viti hvað hún á að fara að greiða atkvæði um.

Ég hef bent á það áður að það eru nokkur atriði í þessum drögum sem mér finnst óþarfi, eins og dýravernd, ríkisendurskoðun og aðrar stofnanir sem er búið að setja inn í stjórnarskrá. Mér finnst það þynna hana út. Hún á fyrst og fremst að fjalla um mannréttindi. Á meðan þau eru ekki 100% í lagi hér á landi — sem þau eru ekki — finnst mér ástæðulaust að þynna út stjórnarskrána með því að bæta inn fleiri atriðum eins og dýravernd.

Svo er eitt sem ég hef nefnt áður, fjöldi atriða í þessum tillögum, samtals um 86, er þess eðlis að gera kröfu til þess að Alþingi geri einhverjar ráðstafanir til að stjórnarskráin verði virk. Ég ætla að nefna hér nokkur dæmi. Í 1. mgr. 20. gr. stendur, með leyfi frú forseta:

„Öllum skal tryggður réttur til að stofna félög í löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds.“

Hver á að tryggja þetta? Það vantar. Mér finnst að það eigi bara að standa: Við megum stofna félög. Punktur. Þá er stjórnarskráin klár, en átta greinar eru í þessa veru.

Síðan eru 40 greinar þar sem gert er ráð fyrir að Alþingi geri eitt og annað. Ég ætla að taka eitthvað hérna af tilviljun:

„Með lögum skal kveða á um rétt flóttamanna og hælisleitenda til réttlátrar og skjótrar málsmeðferðar.“

Ef engin lög eru sett, hvað þá? Er þetta fólk réttlaust? Ég hefði miklu frekar viljað segja: Flóttafólk og hælisleitendur eiga rétt á réttlátri og skjótri málsmeðferð. Þá stæði það í stjórnarskránni og þyrfti engin lög til. 40 atriði eru svona. Ég hef því miður ekki tíma til að taka nema eitt dæmi.

Síðan byggja átta greinar á lagasetningu til að vera virkar. Þar ætla ég að segja til dæmis:

„Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum.“

Ef engin lög eru sett er bara engin vernd. Þetta vill Hreyfingin að þjóðin sé spurð um. (Gripið fram í.)

Svo stendur hér:

„Óheimilt er að rjúfa nafnleynd án samþykkis þess sem veitir upplýsingar nema við meðferð sakamáls og samkvæmt dómsúrskurði.“

Ég hefði viljað segja í stjórnarskrá Íslands: Starf fréttamanna skal verndað sem og heimildarmanna þeirra. Punktur. Þá liggur það fyrir og þarf engin lög frá Alþingi eða neitt annað.

Svo eru hérna sjö málsgreinar sem byggja á lagasetningu til að vera virkar. Þetta er það sama. Ég tek dæmi af handahófi. Nú þarf ég að velja eitthvað gott og tek 3. mgr. 11. gr.:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.“

Þarna finnst mér að eigi bara að standa: Takmarka má friðhelgi einkalífs o.s.frv. Það þarf ekki lagasetningu til. Það ætti bara að vera heimild til þess.

Mér finnst þau drög sem hafa komið frá stjórnlagaráði á margan hátt mjög góð og margar góðar nýjar hugmyndir. Ég nefni Lögréttu sem þarf að endurbreyta og laga. Ráðsmennirnir fengu allt of stuttan tíma til að vinna.

Það eru mjög margar athugasemdir sem ég hef gert við þessi drög. Sumt er allt að því stórhættulegt að mínu mati, sérstaklega það sem varðar utanríkismál. Ég hefði viljað að þetta yrði rætt miklu betur áður en þjóðin þarf að fara að greiða atkvæði um eitt stykki stjórnarskrá.