140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2012.

696. mál
[17:23]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Það er nú vonum seinna að tækifæri gefst og ráðrúm til að taka það mál á dagskrá sem nú er komið að hér í dagskrá þingsins. Það er brýnt og þarfnast afgreiðslu þingsins hið fyrsta. Eins og þeir sem fylgjast með þingstörfum hafa orðið vitni að undanfarna sólarhringa hefur hluti þingsins verið upptekinn við önnur verkefni hér í þingsal, að ræða önnur mál og koma þannig í veg fyrir að önnur mikilvæg mál kæmust á dagskrá þingsins.

Hér liggur fyrir tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2012. Þetta er þingsályktunartillaga sem hæstv. utanríkisráðherra mælti fyrir og texti ályktunarinnar er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2012 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Þórshöfn og Reykjavík 23. mars 2012.“

Hér er sem sagt um það að ræða að ganga frá samningi milli Íslands og vina okkar í Færeyjum um veiðar innan lögsögu beggja ríkjanna á yfirstandandi ári og það er þess vegna sem ég sagði hér í upphafi að þetta væri mál sem þyrfti að fá afgreiðslu þingsins hið fyrsta.

Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þetta mál og fengið til sín starfsmenn úr utanríkisráðuneyti og frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti til að fara yfir efni samningsins. Eins og áður greinir er með þessari tillögu leitað heimildar Alþingis til að staðfesta umræddan samning.

Þessi samningur kveður á um heimildir aðila til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu hvor annars á yfirstandandi ári. Hann er óbreyttur frá fyrra ári að öðru leyti en því að ekki er lengur kveðið á um gagnkvæma veitingu leyfa til tilraunaveiða á túnfiski innan lögsögu landanna. Ástæðan fyrir því að samningur af þessu tagi er gerður árlega helgast að sjálfsögðu af því að í honum er kveðið á um veiðiheimildir, þ.e. magn veiðiheimilda í lögsögu hvors ríkis um sig og þar þarf að sjálfsögðu að byggja á fiskveiðiráðgjöf frá sérfræðingum, frá Hafrannsóknastofnun, og þess vegna þarf að endurskoða aflaheimildirnar frá ári til árs.

Færeysk skip munu, samkvæmt þessum samningi, fá heimild til þess að veiða 30 þús. lestir af loðnu innan íslenskrar lögsögu á loðnuvertíðinni 2012/2013 svo fremi að leyfilegur heildarafli verði að minnsta kosti 500 þús. lestir. Verði leyfilegur heildarafli hins vegar minni nemur hlutdeild færeyskra skipa 5% af honum. Þá fá Færeyingar heimild til þess að vinna loðnu um borð og landa henni til manneldis erlendis. Þannig mega þeir vinna 3/4 hluta þess kvóta sem er leyfilegur heildarafli en minni en 500 þús. lestir. Ef leyfilegur heildarafli er aftur á móti meiri en 500 þús. lestir mega Færeyingar vinna 2/3 hluta kvóta síns. Eftir 15. febrúar skal þó eigi meira en 1/3 hluti kvóta færeyskra skipa fara til manneldisvinnslu utan Íslands. Færeyskum skipum er heimilt á loðnuvertíðinni 2012/2013 að veiða allt að 10 þús. lestir af loðnu innan íslenskrar lögsögu úr veiðiheimildum sem fengnar eru með samningum færeyskra og grænlenskra stjórnvalda.

Samningurinn gerir einnig ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors aðila til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu hins á árinu 2012.

Íslenskum skipum eru heimilar veiðar á allt að 1.300 lestum af makríl og 2.000 lestum af síld annarri en norsk-íslenskri innan færeyskrar lögsögu á árinu 2012.

Rétt er að geta þess að þessi samningur tók gildi til bráðabirgða 23. mars 2012, þ.e. við undirskrift, og mun öðlast endanlegt gildi þegar tilkynnt hefur verið um að stjórnskipulegum skilyrðum hvors lands um sig hafi verið fullnægt, en það gerist með afgreiðslu Alþingis á þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umfjöllunar.

Áður en samningurinn var gerður var á grundvelli samnings landanna frá 1976, um heimildir Færeyinga til veiða í lögsögu Íslands, ákveðið að færeyskum skipum væri heimilt að veiða 5.600 lestir af botnfiski við Ísland á árinu 2012, en heildarafli þorsks verður þó aldrei meiri en 1.200 lestir og engar veiðar eru heimilaðar á lúðu eða grálúðu.

Ég tel, frú forseti, mikilvægt að gengið sé frá þessum samningi sem allra fyrst. Það er mikilvægt að við eigum góð samskipti við vini okkar í Færeyjum um fiskveiðimálefni og þessi samningur er að sjálfsögðu liður í því. Við höfum lengstum haft mjög gott samstarf við Færeyinga á sviði fiskveiðimála og eins og ég gat um áðan var samningur gerður 1976 um heimildir Færeyinga til veiða í lögsögu Íslands, en það var einmitt í kjölfar þorskastríðsins og átakanna vegna útfærslu íslensku lögsögunnar í 200 mílur sem samningur var gerður við Færeyinga um heimildir þeirra til að veiða innan íslenskrar lögsögu, eins og áður segir, 5.600 lestir af botnfiski.

Utanríkismálanefnd er einhuga í því að leggja til að þessi tillaga verði samþykkt að lokinni umræðu. Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til álits nefndarinnar á þskj. 1347 og raunar til tillögunnar sjálfrar á þskj. 1128, en þar er að finna texta samningsins á milli Íslands og Færeyja, bæði á íslensku og færeysku. Og treysti ég því að þingmenn sem vilja kynna sér betur efni samningsins og það sem hann felur í sér leiti þá fyrir sér í umræddu þingskjali. Ég treysti því einnig að það muni engu skipta hvort þeir lesa textann á íslensku eða færeysku því að þeir eru líkir eins og við þekkjum.

Þegar málið var til umfjöllunar í utanríkismálanefnd voru þrír hv. þingmenn, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Helgi Hjörvar og Mörður Árnason, fjarstaddir við afgreiðslu málsins.

Undir þetta nefndarálit frá utanríkismálanefnd rita Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Gunnar Bragi Sveinsson, Illugi Gunnarsson, Magnús Orri Schram, Ragnheiður E. Árnadóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Það er sem sagt tillaga okkar til þingsins að það samþykki þennan samning og ég vænti þess og vonast til þess að virðulegur forseti geti gert ráðstafanir til þess að þetta mál komist sem fyrst á dagskrá á nýjan leik á þingfundi til að greiða um það atkvæði.