140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

752. mál
[17:32]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Megintilgangur frumvarpsins er að innleiða þrjár EB-gerðir í íslenskan rétt og að styrkja framkvæmd norræna umhverfismerkisins hér á landi. Þá er í frumvarpinu ákvæði um færanlega starfsemi og endurskoðun starfsleyfa. Þær gerðir sem lagt er til að innleiddar verði eru reglugerð EB nr. 66/2010 um umhverfismerki Evrópusambandsins, tilskipun 2008/50/EB um loftgæði og hreinna loft í Evrópu og tilskipun 2001/81/EB frá 23. október 2001 um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni.

Í 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 5. gr. laganna sem fjallar um heimild til handa ráðherra til að setja almenn ákvæði um framkvæmd mengunarvarnaeftirlits í reglugerð. Þessi ákvæði varða í fyrsta lagi ákvæði um umhverfismerki á vörur og þjónustu og í öðru lagi almenna áætlun sem útbúa á í samræmi við tilskipun um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni og til innleiðingar á tilskipun um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu. Þannig er lagt til að ráðherra geti í reglugerð sett nánari ákvæði um losunarbókhald fyrir tiltekin loftmengunarefni, mat á losun loftmengandi efna, losunarspá, varnir gegn loftmengun þar sem meðal annars skulu koma fram viðmiðunarmörk fyrir loftgæði, mengandi efni og losun þeirra út í andrúmsloftið, aðgerðaáætlanir, upplýsingaskyldu stjórnvalda til almennings varðandi loftgæði, svo og skyldu starfsleyfishafa til þess að veita þeim sem eftirlit hafa með ákvæðum starfsleyfis upplýsingar um losun mengandi efna og loftgæði og framsetningu upplýsinga.

Í þriðja lagi er lagt til að ráðherra geti í reglugerð sett nánari ákvæði um starfsleyfisskyldu fyrir færanlega starfsemi og eftirlit heilbrigðisnefnda með slíkri starfsemi. Færanleg starfsemi merkir starfsemi sem eðli sinnar vegna er færanleg milli staða, en komið hafa upp vafamál í framkvæmd um þau tilvik þegar starfsemi hefur verið veitt starfsleyfi á svæði einnar heilbrigðisnefndar en í ljós kemur á öðru svæði að ekki er farið að ákvæðum starfsleyfis eða starfseminni er að einhverju leyti ekki hagað í samræmi við lög. Óvissa í þessum efnum getur leitt til þess að ekki verði brugðist við brotum á reglum um hollustuhætti eða mengunarvarnir.

Samkvæmt gildandi lögum er útgefanda starfsleyfis heimilt að endurskoða starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, svo sem ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búist var við þegar leyfið var gefið út. Mikilvægt er, ef nauðsyn reynist, að gefa út nýtt starfsleyfi að hefja það ferli sem fyrst. Því er lagt til í frumvarpinu að útgefandi starfsleyfis skuli tilkynna starfsleyfishafa um það hvenær endurskoðun starfsleyfis hefjist og tilgreina forsendur endurskoðunar og að starfsleyfishafi skuli senda inn nauðsynlegar upplýsingar vegna endurskoðunarinnar.

Reglugerð um umhverfismerki Evrópusambandsins sem nefnt er Blómið kveður á um stofnun og notkun á valfrjálsu umhverfismerkjakerfi Evrópusambandsins og kemur í stað eldri reglugerðar sem hefur verið tekin upp í EES-samninginn og var innleidd hér á landi með reglugerð um umhverfismerki árið 2006.

Norræna umhverfismerkið Svanurinn hefur verið í notkun á Norðurlöndunum í rúma tvo áratugi. Umhverfisstofnun hefur umsjón með merkinu á Íslandi.

Lagt er til nýtt ákvæði um umhverfismerki í grein sem verður 6. gr. c. Með ákvæðinu er lagt til að kveðið verði á um helstu skilyrði þess að umhverfismerkið verði veitt vöru eða þjónustu. Umhverfismerkingar gegna mikilvægu hlutverki við að draga úr umhverfisálagi framleiðslu og þjónustu. Þykir mikilvægt að hvetja til notkunar umhverfismerkja sem eru skýr, aðgengileg og myndræn skilaboð til neytenda um að viðkomandi vara eða þjónusta valdi almennt minna umhverfisálagi en önnur vara eða þjónusta á markaði. Er þess vegna kveðið á um það að þeim sem veitt hefur verið leyfi til að auðkenna vörur með umhverfismerki sé heimilt að nota það í auglýsingar- og kynningarskyni. Að sama skapi er mikilvægt að umhverfismerki séu ekki misnotuð, að neytendur séu ekki blekktir með skilaboðum um að veitt hafi verið umhverfismerki, liggi ekki fyrir formleg viðurkenning þess efnis. Því er lagt til að öll notkun umhverfismerkja eða auglýsing vöru og/eða þjónustu sem gefur til kynna að umhverfismerki hafi verið veitt án þess að formleg viðurkenning þess efnis liggi fyrir sé óheimil.

Ástæða þykir að kveða sérstaklega á um gjaldtöku fyrir umhverfismerki en hún er að nokkru leyti ólík annarri gjaldtöku. Norræn samvinna er um gjaldtöku fyrir umhverfismerkið Svaninn. Miðað er við að þjónusta hins opinbera sé að mestu borin uppi af innheimtum gjöldum. Samstarf hefur skapast um að Norðurlöndin innheimti gjöld hvert fyrir annað. Við ákvörðun gjalds fyrir eftirlit og leiðbeiningu eftir að notkun umhverfismerkis hefur verið leyfð hefur þótt eðlilegt að miða við veltu viðkomandi vöru- eða þjónustutegundar í þessu sambandi. Er það einföld aðferð og er reynslan sú að þjónusta opinberra aðila er almennt meiri eftir því sem umfang framleiðslu eða þjónustu er meira. Þörf fyrir eftirlit eykst til dæmis í hlutfalli við umfang og dreifingu. Þar sem það að fá viðurkennda umhverfismerkingu á vöru eða þjónustu er valfrjálst og því lögmæt aukaþjónusta hjá viðkomandi stjórnvaldi er talið heimilt að haga gjaldtöku þannig að innheimt verði árgjald sem tengt er við veltu. Er því í 5. mgr. greinarinnar lagt til að heimilt sé að kveða á um innheimtu árgjalds sem tengist veltu.

Tilskipun um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni, svokölluð þaktilskipun, hefur það að markmiði að vernda umhverfið og heilsu manna gegn skaðlegum áhrifum súrrar ákomu, ofauðgunar jarðvegs og áhrifum ósons við yfirborð jarðar. Auk þess er gerðinni ætlað að vinna að því langtímamarkmiði að halda loftmengun innan marka sem nauðsynleg eru til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif á lífríkið og heilsu manna og til að vernda fólk gegn heilsufarsvandamálum sem stafa af loftmengun.

Tilskipun um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu hefur það að markmiði að meta loftgæði í aðildarríkjum, afla upplýsinga um loftgæði, vinna gegn loftmengun og skaða af hennar völdum ásamt því að hafa eftirlit með langtímaframvindu og bættum loftgæðum, svo og að tryggja að upplýsingar um loftgæði séu gerðar aðgengilegar almenningi. Jafnframt er markmið tilskipunarinnar að viðhalda loftgæðum þar sem þau eru mikil en bæta þau ella.

Lagt er til í 6. gr. d. að ábyrgðaraðilar starfsemi sem hefur í för með sér losun mengandi efna í andrúmsloft skuli gera viðeigandi ráðstafanir, þar með talið með umhverfisstjórnun og hreinsibúnaði til að draga úr slíkri losun eftir því sem nánar er mælt fyrir um í reglugerð.

Lagt er til að ráðherra skuli í reglugerð skilgreina og setja markmið um loftgæði, uppsetningu, staðsetningu og rekstur mælistöðva, og um skyldu atvinnurekstrar sem háður er starfsleyfi til að veita upplýsingar um loftgæði og losun mengandi efna út í andrúmsloftið.

Í því skyni að vinna gegn loftmengun og skaða af hennar völdum og til að hafa eftirlit með framvindu og bættum loftgæðum er lagt til að Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga afli upplýsinga, meti loftgæði, setji upp og reki mælistöðvar og tryggi að upplýsingar um loftgæði séu aðgengilegar almenningi samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð

Lagt er til að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga skuli hver á sínu svæði gefa út staðbundna áætlun um loftgæði þar sem meðal annars á að setja fram tímaáætlun vegna úrbóta, aðgerðir og stefnumörkun. Heilbrigðisnefndir geta gefið út áætlun einar sér eða í samvinnu við aðrar heilbrigðisnefndir. Þá er kveðið á um að heilbrigðisnefndir skuli vinna viðbragðsáætlanir sem taka til skammtímaaðgerða varðandi loftgæði á svæði hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar til þess að auka loftgæði.

Samkvæmt gildandi lögum hefur Umhverfisstofnun yfirumsjón með heilbrigðiseftirliti og skal sjá um að vöktun og rannsóknir séu framkvæmdar. Heilbrigðisnefndum ber að sjá um að ákvæðum reglugerðar frá 1999 um loftgæði sé framfylgt. Umhverfisstofnun skal þannig áfram bera ábyrgð á loftgæðavöktun og heilbrigðisnefndir halda áfram að afla upplýsinga, meta loftgæði á sínu svæði, setja upp og reka mælistöðvar eftir því sem þörf er á til að sinna hlutverki sínu, svo og að tryggja að upplýsingar um loftgæði séu aðgengilegar almenningi, t.d. á vefsetrum sínum. Nú framkvæma sveitarfélög tilteknar mælingar á loftgæðum og upplýsa íbúa um loftgæði. Til dæmis má nefna að á vef Reykjavíkurborgar eru birtar upplýsingar um loftgæði og á vefjum einstakra annarra heilbrigðiseftirlitssvæða. Rétt er að benda á að mögulegt er að gera áætlun sem nær yfir fleiri en eitt heilbrigðiseftirlitssvæði og ætti það að auka hagkvæmni sveitarfélaga.

Þá er lagt til að Umhverfisstofnun haldi bókhald yfir losun tiltekinna efna sem menga andrúmsloftið, setji fram losunarspá og reki loftgæðastjórnunarkerfi samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Þá er jafnframt kveðið á um að Umhverfisstofnun skuli flokka og meta svæði og þéttbýlisstaði með tilliti til loftgæða samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra gefi út til tólf ára í senn almenna áætlun um loftgæði sem gildir fyrir landið allt. Gert er ráð fyrir að í áætluninni komi fram mælanleg markmið, upplýsingar um loftgæði í landinu og tímaáætlun, aðgerðir og stefnumörkun til að bæta loftgæði. Lagt er til að Umhverfisstofnun auglýsi drög að aðgerðaáætluninni í sex vikur þannig að hagsmunaaðilar, almenningur og stjórnvöld fái tækifæri til að gera athugasemdir við hana. Almenningi skal tryggður aðgangur að áætluninni, m.a. á vefsetri Umhverfisstofnunar.

Ef sú áhætta er fyrir hendi að styrkur mengunarefna í andrúmslofti á tilteknu svæði eða tilteknum þéttbýlisstað fari yfir umhverfismörk er gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun geri aðgerðaáætlun með það að markmiði að draga úr hættu sem af því ástandi stafar eða stytta tímabilið sem hættuástandið varir, samanber 6. mgr. greinarinnar.

Loks er kveðið á um í 7. mgr. greinarinnar að Umhverfisstofnun skuli tryggja að almenningur og hlutaðeigandi hagsmunasamtök, svo sem umhverfissamtök, neytendasamtök, samtök sem annast hagsmuni viðkvæmra hópa fólks og þar má nefna hópa eins og astma- og lungnasjúklinga, aðrir viðeigandi aðilar á sviði heilsugæslu og viðkomandi samtök atvinnulífsins, fái nægar upplýsingar meðal annars um gæði andrúmslofts og áætlanir um loftgæði. Þessar upplýsingar á að veita með góðum fyrirvara. Loks er kveðið á um að upplýsingar skuli vera aðgengilegar á vefsetri Umhverfisstofnunar. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um hvaða upplýsingar beri að veita og framsetningu þeirra.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið hér meginefni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.