140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

752. mál
[17:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að fara yfir þessa breytingu á hollustuháttum og í hverju þessar innleiðingar felast. Ég ætla ekki að spyrja ráðherrann neitt út í umhverfismerkin, tel það jákvætt mál og að lítill kostnaður fylgi því.

Mig langaði aðeins að spyrja hæstv. ráðherra út í uppsetningu mælistöðva (Gripið fram í.) þar sem fjallað er um að „Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga afla upplýsinga, meta loftgæði, setja upp og reka mælistöðvar, svo og tryggja að upplýsingar um loftgæði séu aðgengilegar almenningi, samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð“.

Í mati umhverfisráðuneytisins — það er jákvætt að ráðuneytið skuli leggja kostnaðarmat á frumvarpið sem ekki öll ráðuneyti gera — er sagt að annars vegar falli enginn aukinn kostnaður á sveitarfélögin vegna þessa þáttar og hins vegar kemur fram að vegna þessa nýmælis verði kostnaðaraukinn óverulegur.

Eftir gos á Suðurlandi hafa komið upp óskir frá mörgum íbúum um að setja víða upp mælistöðvar. Þessar mælistöðvar eru hreint ekki ódýrar. Því vil ég spyrja hvernig kostnaður sveitarfélaga á öllu landinu verður óverulegur ef þau þurfa öll að setja upp og reka slíkar stöðvar fyrir utan að setja upp ákveðna vinnu í sambandi við loftgæði. Er það, án þess að það standi í frumvarpinu, meiningin að Umhverfisstofnun kaupi allar slíkar stöðvar? Það stendur hvergi og er óskýrt en sá kostnaðarauki sem verður af rekstrinum er verulegur. Mér finnst kostnaðurinn vera verulega vanmetinn. Ég vil heyra álit ráðherra á þessu.