140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

752. mál
[17:45]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram á bls. 6, með leyfi forseta:

„Við mat á gerðinni og innleiðingu hennar í íslenska löggjöf kom í ljós að um nokkur íþyngjandi ákvæði er að ræða. Þar má nefna skyldu fyrirtækja til að upplýsa um losun …“ — o.s.frv.

Að lokum kemur fram í síðustu efnisgrein þessa kafla:

„Loftgæðatilskipunin snertir almenning, sveitarfélög og atvinnulífið. Þá ber ríkinu að setja upp mælistöðvar, reka loftgæðalíkan og vinna losunarbókhald og var talin nauðsyn að kveða á um þessa þætti í lögum.“

Ég vona, virðulegur forseti, að þetta svari hv. þingmanni.

Varðandi undirbúninginn að þessari vinnu er það að segja að þarna er á ferðinni EES-teymið sem er samráðsvettvangur ráðuneytisins og sveitarfélaganna um þessi mál. Eins og hv. þingmaður bendir á eru gríðarlega miklir hagsmunir þarna á ferð hvað varðar lífsgæði. Það má kannski nefna það, því að hér hafa menn verið að tala um stjórnarskrá og mannréttindi, að krafan um heilnæmt umhverfi verður sífellt sterkari og meira aðkallandi í umræðunni um mannréttindi yfirleitt í heiminum, ekki síður í Evrópu en annars staðar. Þessi innleiðing er í rauninni partur af því að tryggja rétt almennings til heilnæms umhverfis.