140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

752. mál
[17:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég ætla að hafa nokkur orð um þetta frumvarp.

Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra eru þetta einar sex greinar, þar af fjórar efnisgreinar, þar sem er verið að innleiða þrjár mismunandi EB-gerðir. Sú fyrsta þeirra varðar umhverfismerki eins og að styrkja stöðu Svansins og koma því merki betur á framfæri, þ.e. hinu norræna merki sem allflestir þekkja, og Blómsins, sem er evrópskt umhverfismerki. Ég tel það vera jákvætt og hið besta mál.

Í áliti fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins á fylgiskjali II er talað um að kostnaður við kynningar á leiðbeiningarskyldu stofnunarinnar á umhverfismerkjum sem og vöru og þjónustu sem hljóti umhverfismerkin séu metin á 2 millj. kr. á ári. Það er ásættanlegt, jafnvel í því árferði sem við búum við í dag.

Síðan varðandi þaktilskipunina og landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni hef ég haft af því nokkrar áhyggjur. Ég veit til þess að hæstv. ráðherra og ráðuneyti hafa lagt fram reglugerð þar sem sett eru mörk fyrir m.a. brennisteinsdíoxíð þar sem mörkin eru umtalsvert lægri en þau sem Alþjóðaheilbrigðisráðið hefur sett, ef ég man rétt aðeins 30% af þeim. Þótti mér nokkuð sérstakt að mörkin væru sett umtalsvert neðar en talið er óskaðlegt og ekki heilsuspillandi þar sem við lifum í eldfjallalandi og nýtum auk þess jarðhita umtalsvert. Ég hefði talið eðlilegra að hafa þau hærri og tel að hv. umhverfis- og samgöngunefnd þurfi að fara vel yfir það.

Mér þótti leitt að heyra að ekki hefði verið haft samráð við raforkugeirann, þann mikilvæga geira í atvinnulífinu og velferðarlífinu á Íslandi vil ég segja, þar sem heitt vatn og ódýr raforka af endurnýjanlegri orku er mikilvæg í samfélagi okkar. Ég hefði talið það eðlilegt.

Eins nefndi hæstv. ráðherra að ýmsir aðrir þættir og aðrar lofttegundir væru þarna einnig undir og auðvitað þarf jafnframt að skoða það. Ég tel að þetta sé varhugavert mál og að menn þurfi að gæta þess að taka ekki of stór skref eða skref sem eru hugsanlega andsnúin heildarhagsmunum okkar þó að ég hafi fullan skilning á þeim rökum sem ráðherra nefndi, að tryggja öllum eins heilnæmt andrúmsloft og hægt er.

Varðandi loftgæðatilskipunina — gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu, eins og hún kallast, hef ég oft haldið því fram að við séum að innleiða ESB-reglugerðir sem hafa lítið með raunveruleikann á Íslandi að gera. Þetta gæti verið eitt slíkt dæmi.

Fyrir nokkrum árum var settur mælir fyrir austan fjall við Alviðru í Grafningi sem átti að vera núllstillir til að menn gætu áttað sig á þeim loftgæðum sem var verið að mæla í þéttbýlinu á höfuðborgarsvæðinu. Mælirinn átti að vera núllstillir fyrir hreint loft. Niðurstaðan varð aftur á móti sú — og voru þá ekki nein gos heldur einfaldlega andrúmsloftið á Íslandi, Haukadalsheiðin og sandeyrarnar í kringum Hagavatn, en menn hafa ekki viljað setja þá virkjun í gang til að minnka þá mengun loftgæða sem þaðan kemur — að sá mælir var oft alveg í botni og loftgæði þar voru miklu verri sem mældust á höfuðborgarsvæðinu. Við slíkar aðstæður hafa allir þeir Íslendingar sem búa nálægt jökulám og slíku lifað um aldir. Þá veltir maður fyrir sér hvaða loftgæðaáætlun eigi að setja til að breyta náttúrulegu umhverfi á Íslandi. Á að banna sandinum að fjúka? Það gengur auðvitað ekki. (BJJ: Jú.)

Á undanförnum árum hafa bæst við þau gos sem hafa verið á Suðurlandi sem hafa tímabundið spillt loftgæðum hér. Hingað hafa komið sérfræðingar sem mæla loftgæði og hafa það jafnvel að ævistarfi. Þeir telja ekkert hættulegt við það svifryk sem tengist þessum gossvæðum þótt það sé tímabundið mjög mikið svo fremi að menn þurfi ekki að lifa í slíku svifryki alla ævi.

Þá velti ég fyrir mér: Í hverju eiga loftgæðaáætlanir sveitarfélaga að felast á svæðum þar sem aldeilis útilokað er að hefta það fok sem kemur og mun koma á komandi árum og öldum á eldfjallalandinu Íslandi? Hvaða mörk á að setja og taka upp úr einhverjum evrópskum innleiðingum um það hvernig við ætlum að viðhalda loftgæðum okkar á Íslandi?

Ég tel að þetta sé líka verulega varhugavert mál sem þurfi að skoða mjög vel og þá kostnaðinn sem umhverfisráðuneytið telur annars vegar engan í sambandi við uppsetningu á þessum mælitækjum og rekstri þeirra og hins vegar óverulegan. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra mun ríkið standa straum af kostnaðinum við þetta, en hvaða kostnaður er það? Ég þykist vita að þessi tæki kosti umtalsverðar fjárhæðir hvert fyrir sig. Ef það á að leggja heildarmat og mæla loftgæði um allt land þarf ansi mörg tæki til að meta það, ekki bara eitt eða tvö. Það kom t.d. fram að reynslan á gossvæðunum fyrir austan sýndi að verulegur munur var á því eftir hvernig vindar blésu hversu mikil mengun var á mismunandi svæðum. Auðvitað er meiri áhætta þar sem mannfjöldi er meiri, þ.e. í þéttbýli. Það er líka áhætta fyrir þá einstaklinga sem lifa í dreifbýli. Það þarf einnig að meta. Þá þarf ansi mörg mælitæki miðað við mismunandi aðstæður hér á landi. Vel að merkja, aðstæður í eldfjallalandi þar sem eru jökulár og gos og svifryksmengun er almenn og algild.

Ég óttast að kostnaðurinn sé vanmetinn af ráðuneytinu. Ólíklegt er að kostnaðarauki sveitarfélaga vegna þessa frumvarps verði óverulegur þrátt fyrir að hér eigi að setja áætlanir um loftgæði sem ég tel að verði einfaldlega ekki hægt að ná vegna landfræðilegra aðstæðna og allt annarra aðstæðna en eru í Evrópu þar sem þessi tilskipun varð til.

Frú forseti. Reiknað er með í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að fjölga þurfi stöðugildum hjá umhverfisstofnun um eitt og hálft. Árlegur viðhaldskostnaður á loftgæðalíkani er metinn á 2 millj. kr. — það hljómar kannski ekki hátt, en ég óttast að hann sé fulllágt metinn. Tímabundinn kostnaður við uppsetningu mælistöðvanets og loftgæðastjórnunar er áætlaður 29 millj. kr. Þetta vildi ég gjarnan fá sundurliðað og sjá á verkplani hversu margar mælistöðvar er um að ræða og hvernig þetta á að vera.

Ég fullyrði að sú reynsla sem hlaust í gosunum fyrir austan gerir það að verkum að fólk gerir miklu meiri kröfur um slíkar mælingar ef þær eiga á annað borð að fara fram. Allir vilja sitja við sama borð og ég tel það fullkomlega eðlilegt.

Af því að hæstv. ráðherra minntist á stjórnarskrárumræðuna þá var einmitt talað um jafnræði í einni af breytingartillögunum, ekki bara hvernig menn vilja sjá t.d. að atkvæði séu eins jöfn og hægt er, sem ég held að allir séu meira eða minna sammála um, heldur var líka talað um jafnræði og jafnrétti til búsetu og að útgjöld ríkisins færu jafnt til allra landsmanna þannig að menn nytu sömu opinberu þjónustu alveg sama hvar þeir byggju. Þetta var ein af breytingartillögunum sem komu við það mál.

Þarna er ein útfærsla: Á fyrst og fremst að setja þessi mælitæki í þéttbýli og láta hitt bara vera? — samanber þá sögu sem ég sagði af núllmælinum í Alviðru sem ekki var hægt að nota vegna þess að hann stóð alltaf í botni. Ef það var norðanátt og því um líkt fyllti sandfok af Haukadalsheiði og sandeyrum í kringum Sandvatn og Hagavatn þann mæli.

Í lokin er í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins áætlað að árlegur kostnaður ríkissjóðs aukist um 12 milljónir fyrir utan þennan 29 milljóna einskiptiskostnað.

Ég tel sem sagt, frú forseti, að það sé mikilvægt að hv. umhverfis- og samgöngunefnd fari vel yfir þetta. Ég tel að það séu þættir í þessu frumvarpi sem eru mjög jákvæðir og sjálfsagt að keyra í gegn þá er varða umhverfismerkið Svaninn og umhverfismerki Evrópubandalagsins, Blómið. Hina tvo þættina tel ég að þurfi að fá vandaðar umsagnir og gefa nefndinni nægilegan tíma til að fara yfir og efast satt best að segja um að þeir fáu dagar sem eftir eru af starfsáætlun þingsins nægi til þess að ljúka því verki.