140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

innheimtulög.

779. mál
[18:10]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ábendingu og vil árétta það sem fórst fyrir í framsögu minni að ég legg til að málið gangi til umfjöllunar hv. efnahags- og viðskiptanefndar á milli umræðna.

Það er sannarlega rétt að allsherjar- og menntamálanefnd er vön að fara með aðfararlög og lög um nauðungarsölu og ýmis önnur slík lög. Það háttar hins vegar þannig til að innheimtulögin heyra undir efnahags- og viðskiptaráðuneyti og falla þar með undir verksvið efnahags- og viðskiptanefndar sem og margvísleg neytendamál á fjármálamarkaði. Þar sem málið snýr að breytingu á innheimtulögum þá varð á endanum samstarf efnahags- og viðskiptanefndar við innanríkisráðuneyti og réttarfarsnefnd vegna þess að málið var talið eiga heima þar.