140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

innheimtulög.

779. mál
[18:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við í hv. efnahags- og viðskiptanefnd sammælumst öll um að flytja þetta frumvarp og er það gert til að bæta neytendarétt sem er að mörgu leyti vanbúinn á Íslandi. Við höfum ekki borið gæfu til þess, þrátt fyrir að ég trúi því að breið pólitísk samstaða sé um það, að bæta það umhverfi sem neytendur búa við á fjármálamarkaði og hefur dýrmætur tími tapast þar.

Þetta mál á sér forsögu, þetta er eitt af þeim málum sem við höfum verið að vinna í og skoða í tengslum við málefni skuldara almennt en kannski sérstaklega á þá aðila sem voru með gengislánin. Ég vildi því vekja athygli á því að frumvarp okkar sjálfstæðismanna hefði betur verið samþykkt, en það frumvarp flutti hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fyrst fyrir tveimur árum og síðan ég þegar hv. þingmaður fór af þingi. Við værum í betri stöðu núna ef það hefði verið gert, ef við hefðum samþykkt flýtimeðferð á dómsmálum sem snúa að gengislánadómum.

Ég vildi láta það heyrast úr þessum ræðustól að ég er afskaplega ósáttur við það hver staða málsins er í kjölfar síðasta gengislánadóms. Það fer tvennum sögum af því hvenær menn fá endanlega niðurstöðu í þau mál. Bjartsýnustu aðilar hafa talið að við munum fá niðurstöðu í Hæstarétti fyrir lok þessa árs og ég vona að það gangi eftir. En að fenginni reynslu ber að taka slíku með fyrirvara og þessir hlutir hafa dregist mjög lengi og eðli máls samkvæmt er erfitt fyrir þá sem þurfa úrlausn mála að þurfa að bíða. Sú óvissa sem er uppi er slæm fyrir alla. Hún er slæm fyrir lántakendur en ekki síður lánveitanda og hefur gert það að verkum að við vitum í raun ekki endanlega stöðu á fjármálamarkaðnum og ekki endanlega stöðu bankanna. Það er nokkuð sem gagnast engum.

Ég tel að við þurfum á þinginu, og þá sérstaklega við í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, að fylgjast vel með þessu máli, vakta það vel. Ég vona að rétt skref hafi verið stigin með því að fara í þetta samráðsferli sem samkeppnisyfirvöld hafa veitt leyfi fyrir, þ.e. að fjármálafyrirtækin og umboðsmaður skuldara vinni saman að því að forgangsraða málum og öðru slíku. En það er hins vegar augljóst að ekki hefur verið unnið eftir því sem sagt var eftir að gengislánadómurinn féll. Þá lýstu forustumenn bankanna því yfir að þeir teldu að strax í kjölfar dómsins þyrfti að bregðast við með einhverjum aðgerðum, nýjum útreikningum og öðru slíku. Það hefur ekki orðið. Niðurstaðan er sú að menn telja að bíða verði eftir endanlegri niðurstöðu frá Hæstarétti og sú bið getur reynst dýrkeypt fyrir einstaka aðila.

Ég vona, virðulegi forseti, að þetta frumvarp muni hins vegar hjálpa til við að efla neytendavernd hér á landi. Ég er afskaplega ánægður með að við höfum leitað til réttarfarsnefndar sem er nefnd sem ég hef mikla trú á og hefur reynst okkur vel í störfum okkar í þinginu. En þrátt fyrir að sú nefnd sé afskaplega góð og hafi reynst vel þá tel ég skynsamlegt að láta fleiri koma að þessu. Það er betra að hafa varann á í málum sem þessum og þess vegna lagði ég til, sem hv. þm. Helgi Hjörvar samþykkti, að þetta mál færi til umsagnar allsherjar- og menntamálanefndar og ætti það að tryggja jafnvandaða og góða umfjöllun innan þingsins og mögulegt er að því gefnu, og ég gef mér þá forsendu, að við sendum þetta mál til umsagnar og fáum gesti. Þannig á að vinna hlutina en það hefur ekki verið sjálfgefið í tíð þessa stjórnarmeirihluta. Mjög mikið hefur vantað upp á að hlutirnir hafi verið unnir faglega og er það stórfurðulegt miðað við allar þær stóru yfirlýsingar sem hafa verið í gangi, sérstaklega á síðustu missirum, um að betur þurfi að vanda vinnubrögð þingsins.

Virðulegi forseti. Í örstuttu máli vil ég vona að þetta mál sé til bóta fyrir neytendur þessa lands og muni koma í veg fyrir að þeir verði órétti beittir. Þess vegna er ég einn af þeim sem flytja þetta mál. Við sjálfstæðismenn erum fylgjandi þessu frumvarpi og vonumst til að það muni verða að lögum í vor.