140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[19:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér annað af hinum svokölluðu IPA-málum sem eru á dagskrá þingsins, þ.e. þingsályktunartillögu um samning varðandi IPA-styrkina og frumvarp sem tengist því varðandi breytingar á lögum o.s.frv. Við ræðum frumvarpið í dag og þó svo að það megi til sanns vegar færa að rétt hefði verið að byrja á þingsályktunartillögunni þá erum við byrjuð á þessari umræðu og því eðlilegt að klára hana.

IPA-styrkirnir og IPA-samningarnir eru að sjálfsögðu hluti af því aðlögunarferli sem íslenska þjóðin er í gagnvart Evrópusambandinu og þetta aðlögunarferli sem er í gangi er vitanlega ekki það ferli sem margir, ég ætla nú ekki að fullyrða allir, töldu sig vera að setja af stað og samþykkja hér í þinginu sumarið 2009. Það er líka alveg ljóst, frú forseti, að frá því að þessi vegferð hófst hefur margt breyst hér innan lands, þ.e. skoðanir fólks á þessu ferli öllu og á Evrópusambandinu, og þar að auki hefur Evrópusambandið sjálft, viðsemjandi okkar, það samband sem við erum að laga okkur að miðað við þetta ferli allt saman, vitanlega breyst gríðarlega mikið.

Það er svolítið sérstakt að þessu ferli skuli haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist þegar öllum er ljóst, miðað við þær fregnir sem við fáum frá Evrópusambandsríkjunum og miðað við þau samtöl sem þingmenn og aðrir eiga við þingmenn innan Evrópusambandsins eða fólk sem þar býr, að gríðarleg undiralda og gerjun er innan Evrópusambandsins um framtíð þess og hvernig þetta bandalag muni líta út í framtíðinni. Auðvitað gera menn sér almennt grein fyrir því að fyrirbæri eins og Evrópusambandið, sem vinnur að stækkun og útþenslu, hlýtur að taka einhverjum breytingum og lagarammi þess hlýtur líka að taka einhverjum breytingum miðað við þróun heimsins, þróun náttúruauðlinda og alls slíks. Engu að síður er þróunin í dag það hröð að það eitt er fullnægjandi ástæða til að menn setjist niður og velti fyrir sér hvort rétt sé að halda áfram þeirri för sem lagt var af stað í.

Að mínu mati er löngu kominn tími til að endurmeta þetta og ég tel í sjálfu sér að við séum komin töluvert út fyrir það umboð sem Alþingi veitti framkvæmdarvaldinu á sínum tíma. Það eru miklu meiri breytingar, miklu meiri aðlögun, í gangi á íslensku samfélagi en menn áttuðu sig á og kannski þorðu að tala um eða alla vega gerðu sér grein fyrir þegar af stað var farið. Ég held, frú forseti, að það eitt ætti að duga til þess að menn setjist niður og endurmeti stöðuna.

Við sjáum líka að efnahagsástand Evrópusambandsins og einstakra ríkja fer mjög versnandi þessa stundina, það er óhætt að segja það. Heimsfrægir hagfræðingar sem ráðlögðu Íslendingum og fjölluðu um Ísland fyrir hrun, og við tókum því miður ekki mark á, eru nú að spá ákveðnum örlögum Grikklands innan evrusamstarfsins og þess háttar. Við höfum líka séð margar greinar og úttektir á því að lýðræðishalli er líklega hvergi meiri en innan Evrópusambandsins þegar kemur að áhrifum einstaklinga, áhrifum íbúa, hvað ákvarðanatöku og þess háttar varðar. Við höfum líka séð það og heyrt að Evrópusambandið eyðir meiri fjármunum í að laga ímynd sína en kóka kóla-fyrirtækið gerir. Við sjáum því að það eru miklar sviptingar og það er ljóst að þetta mun halda svona áfram næstu árin. Það hafa verið sviptingar í Evrópupólitíkinni. Leiðtogar hafa farið og nýir komið í staðinn með aðrar áherslur. Á þetta hljótum við að horfa.

Að sama skapi eru að skapast mörg ný tækifæri fyrir Íslendinga og Ísland á alþjóðavettvangi hvort sem það er í samvinnu við önnur ríki eða í gegnum viðskipti. Við vitum að einhver öflugustu efnahagssvæði heims í dag eru ekki Evrópusambandið, það eru svæði eins og Asía, Kína, Indland, Brasilía og svo virðist vera að Bandaríkin séu að rétta hraðar úr kútnum en menn áætluðu fyrir stuttu. Á þetta allt hljótum við að horfa.

Evrópusambandið beitir hins vegar ákveðinni aðferðafræði þegar lönd hafa sótt um að gerast hluti af því batteríi öllu og liður í því er að löndunum stendur til boða að fá hina svokölluðu IPA-styrki, aðlögunarstyrki — það er náttúrlega það sem þeir heita, aðlögunarstyrkir, og þeir ganga út á að laga íslenskt samfélag að því evrópska. Enda kemur það fram í bæklingi sem Evrópusambandið gaf út, undir ritstjórn eða forustu hins ágæta Finna Ollis Rhen, sem er háttsettur í Evrópusambandinu, að orðið samningaviðræður gefi ranga mynd af því ferli sem ríkin fara í þegar þau sækja um aðild. Um sé að ræða aðlögun landsins að þeim reglum og gerðum sem Evrópusambandið hefur þegar sett.

Þetta verðum við að sjálfsögðu að hafa í huga þegar við ræðum aðlögunarstyrkina. Hlutverk þeirra er að undirbúa samfélagið, búa íslenskt samfélag undir það að geta talist fullgildur aðili að Evrópusambandinu. Þegar að því kemur að aðild er ákveðin þurfa ákveðnar undirstöður að vera tilbúnar, það þarf að vera búið að breyta þeim þannig að þær falli að hinu evrópska kerfi, evrópska lagaumhverfi, stofnunum og öllu því.

Sem betur fer, frú forseti, er orðið ljóst að mjög margir Íslendingar eru farnir að átta sig á þessari stöðu og væri óskandi að fleiri þingmenn kæmust að þeirri niðurstöðu, eins og margir hér úti í samfélaginu, að það er algjörlega vonlaust að halda þessu áfram. Við hljótum því að reyna að fá alvöruumræðu sem allra fyrst og endurmat á því ferli sem við erum í. Það er allt sem bendir til þess að full ástæða sé til að fara í slíkt endurmat hér á Alþingi og ef ekki að leyfa íslenskri þjóð að taka ákvörðun um það hvort þessu verði haldið áfram eða hvernig haldið verður á þessu.

Það er engin ástæða til þess að vera að taka við styrkjum frá Evrópusambandinu sem verða notaðir til að reyna að þróa einhvers konar ímynd eða aðstæður á Íslandi sem standast evrópskar kröfur þegar mjög miklar líkur, og nánast allar líkur, eru á því að Íslendingar hafni slíkum viðræðum.

Nú er hin svokallað já-hreyfing á Íslandi farin að birta auglýsingar og reiknivélar sem ég ætla að leyfa mér að fullyrða, frú forseti, að séu hreint og beint fals að stórum hluta. Það er verið að halda að fólki útreikningum sem byggja á mjög hæpnum forsendum og afar brýnt að sú sýning sem haldið er úti á vefnum einhvers staðar verði leiðrétt hið fyrsta. Það er vitanlega ekki hægt að taka eldgamlar tölur um gengi evrunnar gagnvart íslenskri krónu, margra ára gamlar, og bera þær svo saman við meðalvexti og þess háttar í Evrópusambandinu. Ég ætla ekki að halda því fram að það sé allt gert af einhverri illsku, það er bara einhver misskilningur í gangi og hann þarf að leiðrétta því að ekki er hægt að bjóða landsmönnum upp á að lesa slíkt rugl sem þarna er í gangi.

Frú forseti. Ég kemst ekki lengra í þessari umræðu að sinni. Af nógu er að taka og mun ég því reyna að koma hér síðar inn í frekari umræður.