140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[19:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Í upplýsingabæklingi Evrópusambandsins um aðlögunarferlið segir að ríki sem séu í þessu ferli þurfi oft að ganga í gegnum mjög miklar breytingar til að tryggja að Evrópureglur séu ekki aðeins teknar upp heldur innleiddar með réttum hætti. Til þess eiga þessir IPA-styrkir að vera, að undirbúa löndin, undirbúa stjórnkerfi landanna, undirbúa stofnanir og ýmislegt þess háttar, miðað við þær upplýsingar sem hér eru settar fram, til þess að landið sem sækir um eða er í þessu ferli sé tilbúið. Það kemur reyndar líka fram að nota megi þessa styrki til að hvetja íbúa til að skilja það sem er í gangi, ef það má þýða þetta svona lauslega.

Ég fæ hins vegar ekki séð að það þjóni beint breytingum á íslensku samfélagi eða íslensku stjórnkerfi að setja fjármuni í jafngóð verkefni og atvinnuþróunarverkefni eru. Ég verð líka að segja það, frú forseti, að ég skil vel þá sveitarstjórnarmenn og einstaklinga hér víða um land sem renna hýru auga til fjármuna sem liggja faldir í ýmiss konar verkefnum, koma af stað fræðasetrum eða námi eða einhverju þess háttar. En það er vitanlega gjörsamlega óskylt því ferli sem við erum í gagnvart Evrópusambandinu. Þessir styrkir eru vitanlega notaðir til að kaupa sér ímynd en ekki í annað. Evrópusambandið er að kaupa sér ímynd með styrkjum þegar þeir eru settir í verkefni sem þessi. Það finnst mér einfaldlega rangt, burt séð frá gæðum verkefnanna.